Sport

Frá um hríð og fundar með taugalæknum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tagovailoa liggur eftir höfuðhöggið sem hann varð fyrir í leiknum við Buffalo Bills á fimmtudaginn síðasta.
Tagovailoa liggur eftir höfuðhöggið sem hann varð fyrir í leiknum við Buffalo Bills á fimmtudaginn síðasta. Carmen Mandato/Getty Images

Tua Tagovailoa, leikstjórnandi Miami Dolphins í NFL-deildinni, mun ekki spila með liðinu næstu vikur eftir þriðja heilahristing hans á ferlinum. Fundir með læknum eru næstir á dagskrá.

Tagovailoa lenti saman við Damar Hamlin, leikmann Buffalo Bills, í leik liðanna á fimmtudaginn síðasta. Hann steinlá eftir höfuðhögg og sýndi svokallað skylmingaviðbragð, sem fylgir oft heilahristingum. Hann missti stjórn á útlimum sínum og hægri hönd hans sperrtist upp.

Tagovailoa hefur nú verið settur á meiðslalistann hjá Dolphins og mun því missa af næstu fjórum leikjum, hið minnsta. Sé leikmaður settur á þann lista er það lágmarksfjöldi leikja sem viðkomandi missir af.

Félagið mun standa þétt við bakið á Tagovailoa sem er ekki að lenda í höfuðmeiðslum í fyrsta sinn. Hann hlaut tvo heilahristinga með minna en viku millibili á þarsíðustu leiktíð.

Samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs mun Tua ráðfæra sig við taugalækna og heilasérfræðingum á næstu vikum er hann leitar lausna á sínum málum. Margir velta því upp hvort ferill hans sé á enda runninn vegna ítrekaðra höfuðmeiðslanna en samkvæmt heimildum vestanhafs er Tua ekki á þeim buxunum að hætta.

Fyrsti leikurinn sem Tagovailoa má spila er gegn Arizona Cardinals í áttundu umferð þann 27. október. Það er talið ólíklegt að hann snúi svo fljótt aftur á völlinn og mun Miami-liðið veita honum allan þann tíma sem hann þarf til að ná bata.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×