Innlent

Á­kærður fyrir að stinga lækni í kvöld­göngu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Frá vettvangi í Kópavogi á föstudagskvöldið.
Frá vettvangi í Kópavogi á föstudagskvöldið. Aðsend

Þrítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að stinga lækni á sextugsaldri í júní á þessu ári. Árásin átti sér stað þegar tvenn hjón voru í kvöldgöngu við Lund í Kópavogi, þar á meðal var læknirinn.

Rúv greinir frá ákærunni sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Í henni er manninum gefið að sök að hafa stungið lækninn að minnsta kosti fjórum sinnum í háls, síðu og nára. Hann er ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Þá segir að áverkar læknisins hafi verið lífshættulegir, en hann hafi verið með sár neðarlega á hálsi, nærri hálsbláæðum og hálsslagæðum.

Vísir fjallaði um málið í júní, en þá var greint frá því að meintur árásarmaður hafi komið eftir göngustíg á rafhlaupahjóli, mætt hjónumum tveimur, og ekið utan í annan eiginmanninn sem missti jafnvægið fyrir vikið.

Til orðaskaks hafi komið á milli mannsins og vinahjónanna sem voru ekki sátt við ógætilegan akstur hans. Maðurinn hafi tekið athugasemdum fólksins illa, tók upp hníf og verið ógnandi.

Annar eiginmaðurinn, læknirinn, hafi verið stunginn, en hinn eiginmaðurinn haft hnífamanninn undir og hlotið sár á hendi vegna þess.

Í frétt Rúv kemur fram að maðurinn krefjist fjögurra milljóna króna í miskabætur og 250 þúsund króna í sjúkrakostnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×