Erlent

Fógeti skaut dómara

Samúel Karl Ólason skrifar
Fógetinn er sagður hafa gengið inn í dómshúsið og skotið dómarann nokkrum sinnum eftir rifrildi.
Fógetinn er sagður hafa gengið inn í dómshúsið og skotið dómarann nokkrum sinnum eftir rifrildi. Google maps

Fógeti strjálbýllar sýslu í Kentucky í Bandaríkjunum skaut í gær dómara til bana. Fógetinn er sagður hafa gengið inn í klefa dómarans um miðjan dag í gær og skotið hann nokkrum sinnum eftir rifrildi. Skömmu síðar gaf fógetinn sig fram til lögreglu og var handtekinn.

Fógetinn heitir Mickey Stines og er 43 ára gamall. Dómarinn hét Kevin Mullins og var 54 ára.

Kevin Mullins var 54 ára gamall.AP/Dómstólasýsla Kentucky

Í samtali við New York Times segja rannsakendur að fógetinn hafi verið samvinnufús en hann hefur verið ákærður fyrir morð. Meðal þess sem rannsakendur vonast til að geta svarað er um hvað rifrildið sem leiddi til banaslyssins snerist um.

Héraðsmiðillinn WBKO News segir að Mullins hafa verið saksóknara áður en hann varð dómari og sem saksóknari hafi hann lagt mikla áherslu á að sækja mál sem tengdust fíkniefnum. Eftir að hann varð dómari vakti það athygli fólks að Mullins lagði áherslu á að senda fíkla í meðferð í stað þess að fangelsa þá.

Morðið var framið í Whitesburg í Letcher-sýslu í Kentucky í gær. Um 21.500 manns búa í sýslunni.

„Þetta er lítið samfélag og við erum öll í sjokki,“ sagði Matt Gayheart, frá ríkislögreglu Kentucky á blaðamannafundi í gær.

Fyrst eftir að skothríðin heyrðist í dómshúsinu óttuðust íbúar að vopnaður maður væri á ferðinni um bæinn og var skólum á svæðinu lokað. Lögreglan lýsti því þó fljótt yfir að um einangrað atvik væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×