Af þeim forsetaframbjóðendum sem þurftu að standa skil á uppgjöri til ríkisendurskoðunar er Baldur sá eini sem hefur enn ekki fengið staðfestingu á skilunum, tuttugu dögum eftir að skilafrestur rann út. Ástæðan er athugasemdir sem ríkisendurskoðun gerði við uppgjörið sem framboðið skilaði upphaflega.
Valgeir Magnússon, kosningastjóri Baldurs, segir að athugasemdirnar hafi varðað framlög frá félögum sem töldust tengdir samkvæmt lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka. Tengdum aðilum ber að telja framlög sín saman en hámarksupphæð framlaga er 400.000 krónur fyrir bæði lögaðila og einstaklinga.

Tvö dæmi voru þannig um að tvö tengd félög hefðu gefið hámarksupphæðina hvort og þannig tvöfalt meira en þeim var heimilt samkvæmt lögum. Valgeir segir að helmingur styrkjanna hafi nú verið endurgreiddur, alls 800.000 krónur. Ríkisútvarpið sagði fyrst frá endurgreiðslunum.
„Það tók bara svo langa tíma því við vorum búin að ganga frá og loka bankareikningum. Við þurftum að sækja aftur um bankareikning til þess að geta gert þetta með löglegum hætti og sýnt kvittanir til ríkisendurskoðunar eins og við áttum að gera,“ segir Valgeir.
Alls nam kostnaður við framboð Baldurs um tuttugu milljónum króna, að sögn Valgeirs. Framboð Baldurs var þannig það fimmta dýrasta. Baldur var í fimmta sæti í kosningunum með 8,4 prósent atkvæða.
Valgeir segir að langstærstur hluti framlaganna til framboðsins hafi verið frá einstaklingum sem styrktu það um á bilinu fimm til fimmtán þúsund krónur.