Sumarið hefur verið gott hjá strákunum hans Bjarna Jóhannssonar á Selfossi. Þeir unnu 2. deildina og eru nú komnir í úrslit Fótbolta.net bikarsins eftir sigur á Árbæ, 4-1.
Gonzalo Zamorano skoraði tvö mörk fyrir Selfyssinga og Alexander Clive Vokes og Aron Fannar Birgisson sitt markið hvor. Ragnar Páll Sigurðsson skoraði mark Árbæinga.
Í Fjarðabyggðarhöllinni sigraði KFA Tindastól með tveimur mörkum gegn einu.
Stólarnir náðu forystunni með marki Dominics Furness á 4. mínútu en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði fyrir Austfirðinga tveimur mínútum síðar. Á 69. mínútu skoraði Marteinn Már Sverrisson svo sigurmark KFA.
Úrslitaleikur Selfoss og KFA fer fram á Laugardalsvelli á föstudaginn kemur.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.