Viðskipti innlent

Verð­tryggð jafn­greiðslu­lán að­eins í boði fyrir fyrstu kaup­endur

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsbankinn hækkar íbúðalánavexti sína minna en hinir stóru bankarnir.
Landsbankinn hækkar íbúðalánavexti sína minna en hinir stóru bankarnir. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hækkaði vexti verðtryggðra íbúðalána sinna um fjórðung úr prósenti í dag. Hækkunin er nokkru minni en hinna stóru bankanna. Héðan í frá býður bankinn aðeins fyrstu kaupendum upp á verðtryggð íbúðalán með jöfnum greiðslum.

Eftir vaxtabreytinguna í dag verða breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum Landsbankans fjögur prósent á grunnlánum og fimm prósent á viðbótarlánum. Arion banki og Íslandsbanki hækkuðu sína vexti um 0,4 til 0,5 prósentustig í síðustu viku.

Fastir vextir á verðtryggðum íbúðalánum Landsbankans til sextíu mánaða hækka um hálft prósentustig í dag og kjörvextir verðtryggðra útlána sömuleiðis. 

Fastir vextir á nýjum óverðtryggðum lánum, bæði vegna íbúða og bíla- og tækjafjármögnunar, lækka um 0,2 stig. 

Á sama tíma hækka breytilegir vextir á verðtryggðum innlánum um 0,25 stig.

Hvorki verða breytingar á hámarkslánstíma nýrra íbúðalána né hámarksveðhlutfalli þeirra, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Landsbankans. Engar breytingar verða heldur á framboði verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum.

Breytingarnar taka gildi fyrir ný lán í dag en á eldri lánum í samræmi við tilkynningar sem viðskiptavinir bankans fá sendar.


Tengdar fréttir

Hafa ekki tekið ákvörðun um vaxtahækkun

Stjórnendur Landsbankans hafa ekki tekið ákvörðun um að feta í fótspor hinna stóru viðskiptabankanna tveggja og hækka vexti á verðtryggðum lánum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×