Fótbolti

Bara tvær fljótari en Svein­dís

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru báðar gullleikmenn í FC 25 tölvuleiknum. Sveindís er einn fljótasti leikmaður leiksins.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru báðar gullleikmenn í FC 25 tölvuleiknum. Sveindís er einn fljótasti leikmaður leiksins. vísir/Anton

Sveindís Jane Jónsdóttir er þriðja fljótasta knattspyrnukona heims, ef miðað er við tölurnar í nýjustu útgáfu FC fótboltatölvuleiksins.

FC 25 er væntanlegur úr smiðju EA Sports en um er að ræða vinsælasta fótboltatölvuleik í heimi.

Meistaradeild kvenna birtir í dag nokkra topplista yfir leikmenn úr leiknum og þar á meðal yfir þær fljótustu, og er Sveindís í þriðja sætinu.

Þær sem að tölvuleikurinn telur að séu enn fljótari en keflvíska rakettan eru þær Tabitha Chawinga frá Malaví, sem spilar með Lyon, og hin spænska Salma Paralluelo úr Barcelona.

Sveindís er með 92 af 100 mögulegum í hraða, en Paralluelo með 93 og Chawinga 94.

Glódís Perla Viggósdóttir, sem nýverið var tilnefnd til Gullboltans fyrst Íslendinga, er hins vegar efst Íslendinga þegar kemur að heildareinkunn í leiknum.

Glódís er með 84 í heildareinkunn og því ein af bestu varnarmönnunum í leiknum.

Fjórar íslenskar konur og einn karl í gulli

Sveindís kemur næst á eftir Glódísi með 82 í heildareinkunn. Þær eru tvær af fjórum íslenskum knattspyrnukonum sem flokkast sem gullleikmenn í Ultimate Team útgáfu leiksins. Hinar eru þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir, með 78 í einkunn.

Albert Guðmundsson er eini leikmaður karlalandsliðs Íslands sem flokkast sem gullleikmaður. Albert, sem skoraði tvö mörk í fyrsta leik fyrir Fiorentina í gær, er með 80 í heildareinkunn.

Næstir á eftir honum eru Hákon Arnar Haraldsson og Hörður Björgvin Magnússon með 74 í einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×