Greint var frá málinu á vef RÚV í gær en þar segir að umskurðurinn hafi verið gerður af trúar- eða menningarlegum ástæðum.
Umskurður drengja er ekki bannaður með lögum á Íslandi en fram kemur í frétt RÚV að barnið hafi eftir aðgerðina verið flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri stuttu síðar að beiðni barnaverndaryfirvalda í bænum. Þar þurfti að framkvæma aðra aðgerð á barninu vegna blæðingar í skurðsárinu.
Í frétt RÚV kemur fram að kona hafi ferðast frá Ítalíu til Akureyrar til að framkvæma aðgerðina. Konan sé frá Gana.
Umdeilt mál
Umskurður drengja hefur verið nokkuð umdeildur hér á landi. Árið 2018 lagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fram frumvarp ásamt átta öðrum þingmönnum, þar sem lagt var til að umskurður barna yrði alfarið bannaður. Frumvarpið vakti gríðarlega athygli hér á landi sem og erlendis, en náði að endingu ekki fram að ganga.
Á vef Umboðsmanns barna segir að slíkar aðgerðir á drengjum séu ekki bannaðar en að í hegningarlögum sé að finna ákvæði sem banni umskurð á stúlkum. Í áliti og yfirlýsingu embættisins frá árinu 2013 kom þó fram að umboðsmaður teldi umskurð brjóta gegn grundvallarréttindum drengja. Eðlilegt væri að drengir sem vilji láta gera það af trúar- eða menningarlegum ástæðum tækju ákvörðun um það sjálfir þegar þeir hafi þroska og aldur til að skilja hvað felist í slíkri aðgerð.