Innlent

Hjónin létust eftir lang­varandi veikindi

Árni Sæberg skrifar
Frá Bolungarvík.
Frá Bolungarvík. Vísir/Arnar

Andlát hjónanna sem fundust látin á heimili þeirra í Bolungarvík í lok maí er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti. Þau hafi látist eftir langvarandi veikindi.

Þetta segir í tilkynningu Lögreglunnar á Vestfjörðum á Facebook. Hjónin fundust látin þann 27. maí síðastliðinn og blásið var til mikillar lögregluaðgerðar. Fljótlega var þó tilkynnt að ekki væri grunur um að nokkuð saknæmt hefði átt sér stað. Hjónin höfðu látist nokkru áður.

Í tilkynningu segir að réttarlæknisfræðileg rannsókn hafi verið framkvæmd á hinum látnu, að ósk lögreglu. Lögreglunni á Vestfjörðum hafi nú borist niðurstöðuskýrsla réttarmeinafræðings sem annaðist réttarkrufningu hinna látnu.

„Niðurstaða rannsóknar málsins er sú að andlát hjónanna er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti heldur var orsökin langvarandi veikindi þeirra beggja, sem ekki verður gerð frekari grein fyrir hér. Annar aðilanna hafði sést útivið nokkrum dögum áður en þau fundust látin á heimili sínu, en ekki var hægt að ákvarða nákvæman dánartíma.“

Rannsókn málsins verði því hætt og það tilkynnt með venjubundnum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×