Nýliðar í Viðreisn og Samfylkingunni gera ekki kröfu um að leiða lista en hlakka til að láta að sér kveða í landsmálunum ef eftirspurn er eftir þeim. Þótt ekki hafi enn verið boðað til kosninga eru margir stjórnmálaflokkar byrjaðir að setja sig í stellingar fyrir kosningavetur. Við hittum vongóða frambjóðendur og rýnum í stöðuna sem er að teiknast upp fyrir kosningar en fjöldi þjóðþekktra hefur verið orðaður við framboð til Alþingis.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, gagnrýndi Sameinuðu þjóðirnar harðlega í eldræðu sem hann flutti á allsherjarþingi í dag. Við heyrum frá ræðunni og sjáum einnig myndir frá Beirút þar sem Ísrealsher jafnaði nokkur íbúðarhús við jörðu í árás sem beindist að höfuðstöðvum Hezbollah.
Við ræðum einnig við heilbrigðisráðherra um nikótínpúða sem hann vill skattleggja og ræðum í beinni við foreldri sem hefur áhyggjur af stóraukinni notkun barna á þeim.
Auk þess kíkjum við í búð þar sem allt er ókeypis og í Sportpakkanum verður farið yfir spá fyrirliða og þjálfara liða Bónus-deildarinnar í Körfubolta.
Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.