Erlent

Segir Ísrael í fullum rétti á að verja sig frá Hez­bollah

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Joe Biden fráfarandi Bandaríkjaforseti.
Joe Biden fráfarandi Bandaríkjaforseti. AP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að með drápinu á Hassan Nasrallah hafi Ísrael verið að framfylgja réttlætinu fyrir hönd fórnarlamba hans. Ísrael sé í fullum rétti á að verja sig gegn Hezbollah, Hamas, Hútum í Jemen og öðrum hryðjuverkasamtökum sem fjármögnuð eru af Íran.

„Hassan Nasrallah og hryðjuverkasamtökin sem hann stóð á bak við, bera ábyrgð á dauða mörg hundruð Bandaríkjamanna eftir ógnarstjórn þeirra síðustu fjóra áratugina,“ sagði Biden. Meðal fórnarlamba Nasrallah væru þúsundir Bandaríkjamanna, Ísraela og Líbanir.

Þá sagði Biden að Nasrallah hefði átt frumkvæði að því að ráðast gegn Ísrael eftir hryðjuverkaárás Hamas samtakanna 7. október síðastliðinn.

Sayyed Hassan Nasrallah leiðtogi Hezbollah féll í loftárásum Ísraela á Líbanón í nótt.

Lykilatriði að draga úr átökum á svæðinu

„Æðsta markmið okkar er er að draga úr átökum á svæðinu, bæði á Gasa og í Líbanon með diplómatískum hætti,“ sagði Biden.

Tími væri kominn á stöðugleika í öllum Mið-Austurlöndum.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segir að Nasrallah hafi verið hryðjuverkamaður með bandarískt blóð á sínum höndum.

Hún sakar hann um að hafa ýtt undir óstöðugleika í Mið-Austurlöndum og segir hann bera ábyrgð á ótöldum dauðsföllum saklausra borgara í Líbanón, Ísrael, Sýrlandi og um allan heim. Réttlætinu hefði verið framfylgt í nótt.

Þá sagði hún að Ísrael hefði alltaf fullan rétt á því að verja sig gegn hryðjuverkasamtökum, sem væru fjármögnuð af Íran.

Yfirlýsing Kamölu í heild sinni er hér.


Tengdar fréttir

Kallar eftir stuðningi allra múslima við Hezbollah

Leiðtogi Hryðjuverksamtakanna Hezbollah var drepinn í loftárásum Ísraela á Beirút í nótt. Æðstiklerkur Íran segir alla múslima þurfa að standa með trúbræðrum sínum í Hezbollah. Talsmaður Ísraelshers segir samtökin draga Líbanon og nærliggjandi ríki inn í átök, sem Ísrael vilji ekki að breiðist út.

Öllum flugferðum til Beirút aflýst

Íranska flugfélagið, Iran Air, hefur aflýst öllum flugferðum sínum til og frá Beirút, höfuðborgar Líbanon, um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×