Fótbolti

Vilja fram­lengja við nærri fer­tugan Ron­aldo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo hefur skorað og skorað í Sádi-Arabíu en lið hans á nokkuð langt í land með að skáka meistaraliði Al Hilal.
Ronaldo hefur skorað og skorað í Sádi-Arabíu en lið hans á nokkuð langt í land með að skáka meistaraliði Al Hilal. Elie Hokayem/Getty Images

Al Nassr hefur opnað á viðræður við Cristiano Ronaldo um að framlengja samning hans til ársins 2026. Núverandi samningur framherjans gildir til næsta árs en félagið vill framlengja við hann sem fyrst.

Hinn 39 ára gamli Ronaldo hefur skorað sjö mörk í sex leikjum til þessa á leiktíðinni eftir að skora 44 í 45 leikjum á síðustu leiktíð.

Samningur hans við Al Nassr rennur út á næsta ári en hann vill ólmur halda áfram að spila þangað til HM 2026 fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Hann yrði þá fyrsti leikmaður sögunnar karla megin til að taka þátt í sex heimsmeistarakeppnum.

Ronaldo skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við Al Nassr í desember 2022. Núverandi samningur hans er upp á rúmlega 27 milljarða íslenskra króna á ári. Ekki kemur fram í frétt ESPN hvort nýr samningur kæmi með launahækkun eður ei.

Al Nassr telur að Ronaldo stefni á að enda feril sinn hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×