Fótbolti

Simeone kennir Courtois um ó­lætin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Thibaut Courtois kastar kveikjara út af vellinum í gær.
Thibaut Courtois kastar kveikjara út af vellinum í gær. vísir/getty

Diego Simeone, þjálfari Atletico Madrid, var allt annað en sáttur við stuðningsmenn félagsins og markvörð Real Madrid í gær.

Þá gerði Atletico jafntefli í borgarslagnum við Real Madrid en það varð að gera hlé á leiknum um tíma vegna áhorfenda.

Þeir köstuðu nefnilega alls konar hlutum inn á völlinn um miðjan seinni hálfleik. Þar á meðal kveikjarar og plastflöskur. Varð að gera 20 mínútna hlé á leiknum vegna þessa.

„Við verðum öll að hjálpast að við að stöðva svona hluti. Það er rangt að kasta hlutum inn á völlinn,“ sagði Simeone sem gaf þó í skyn að það væri Thibaut Courtois, markverði Real Madrid, að kenna því hann hefði ögrað áhorfendum er hann fagnaði marki sinna manna.

„Við sem tökum þátt í leiknum megum ekki ögra áhorfendum. Við verðum að kunna okkur. Ekki horfa upp í stúku og fagna í andlit stuðningsmanna. Það er ögrun.“

Þó svo Simeone kenni Courtois um þá er hann samt ekki ánægður með sitt fólk í stúkunni.

„Við verðum að hugsa um félagið og liðið. Svona hegðun hjálpar ekki liðinu. Við höfum ekkert að gera með svona stuðningsmenn. Við þurfum stuðningsmenn sem styðja liðið og sleppa svona fíflalátum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×