Erlent

Saka rúss­neskan flug­mann um „ófagmannlega“ hegðun

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússnesk orrustuþota af gerðinni Su-35 og Tu-95 sprengjuflugvél er hér í bakgrunni.
Rússnesk orrustuþota af gerðinni Su-35 og Tu-95 sprengjuflugvél er hér í bakgrunni. NORAD

Herforingi í flugher Bandaríkjanna segir rússneska flugmenn hafa hagað sér mjög ófagmannlega þegar bandarískir flugmenn flugu að fjórum rússneskum herflugvélum nærri Alasaka. Flugvélarnar fjórar sáust á ratsjám þann 23. september og voru flugmenn sendir til móts við þær.

Þá höfðu Rússarnir flogið inn á svokallað varnarsvæði Bandaríkjanna og Kanada, en það er svæði sem liggur fyrir utan formlega lofthelgi en þykir svo nærri lofthelginni að óvinir gætu ógnað öryggi Bandaríkjanna og Kanada.

Því eru herþotur sendar til móts við óþekktar flugvélar á þessu svæði.

Þegar einni orrustuþotu var flogið í átt að Tupolev Tu-95 sprengjuflugvél, sem kölluð hefur verið „Björn“ í gegn um árin, var rússneskri Su-35 orrustuþotu flogið þar á milli og mjög nærri bandarísku, eða kanadísku, orrustuþotunni, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi og myndum.

Gregory M. Guillot, herforingi í flugher Bandaríkjanna, sem stýrir vörnum sameiginlegrar lofthelgi Bandaríkjanna og Kanada (NORAD), segir í yfirlýsingu að flugmaður einnar Su-35 herþotu hafa hagað sér með óábyrgum og ófaglegum hætti. Hegðun hans hafi ógnað lífi fólks og eigi hún ekki að sjást hjá flugmönnum í atvinnuherjum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem atvik á við þetta á sér stað. Bandaríkjamenn hafa ítrekað sakað kínverska flugmenn um að haga sér ófagmannlega yfir Suður-Kínahafi.

Sjá einnig: Flaug þotu þremur metrum frá sprengjuflugvél

Þá gerðist það tvisvar sinnum yfir Svartahafi í fyrra að rússneskum flugvélum var flogið mjög nærri bandarískum drónum. Í öðru tilvikinnu flaug rússneskur flugmaður á dróna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×