Erlent

Engar fregnir af mann­falli í Ísrael

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelskur hermaður klæðist bænadúk á vígstöð í norðurhluta Ísrael.
Ísraelskur hermaður klæðist bænadúk á vígstöð í norðurhluta Ísrael. AP/Baz Ratner

Enn er fátt vitað um skaðann af umfangsmikilli eldflaugaárás Íran á Ísrael í gær en engar tilkynningar hafa borist um dauðsföll eða meiðsl á fólki. Einn lést á Vesturbakkanum.

Myndir eru hins vegar í dreifingu af stórum gígum víða í Ísrael, meðal annars við höfuðstöðvar leyniþjónustunnar Mossad í Tel Aviv.

Stjórnvöld í Ísrael segja 180 eldflaugum hafa verið skotið að landinu, þar á meðal afar hraðskreiðum Fattah eldflaugum. 

Aðilum ber ekki saman um áhrif árásarinnar en yfirvöld í Íran segja um 90 prósent eldflauganna hafa hæft skotmörk sín, á meðan Ísraelsher segir flestar hafa verið skotnar niður. Ef marka má yfirlýsingar Bandaríkjamanna og Breta, sem tóku þátt í vörnum Ísraelsmanna, er það nærri sannleikanum.

Aðgerðir Ísraelshers í suðurhluta Líbanon hafa haldið áfram og enn ein viðvörunin gefin út til íbúa, að þessu sinni í 20 bæjum, um að flýja heimili sín. Fólki er ráðlagt að leita ekki suður. 

Viðvörununum er sérstaklega beint til þeirra sem búa nálægt innviðum Hezbollah.

Viðvaranir hafa einnig verið gefnar út í norðurhluta Ísrael, vegna mögulegra árása frá Líbanon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×