Viðskipti innlent

Eirberg hættir með verslunina í Kringlunni í kjöl­far brunans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verslun Eirbergs á Stórhöfða hefur stækkað og tók við starfsmönnum verslunarinnar í Kringlunni.
Verslun Eirbergs á Stórhöfða hefur stækkað og tók við starfsmönnum verslunarinnar í Kringlunni.

Stjórnendur Eirbergs hafa ákveðið að loka verslun fyrirtækisins í Kringlunni en verslunin eyðilagðist í brunanum í verslanamiðstöðinni 15. júní síðastliðinn.

„Bruninn var auðvitað mikið áfall, við höfum jú átt farsælan rekstur í Kringlunni í 10 ár og áttum þar yndislegan tíma með rekstraraðilum, verslunareigendum og viðskiptavinum,“ er haft eftir Kristni Johnson, framkvæmdastjóra Eirbergs, í tilkynningu frá fyrirtækinu.  

„Við vissum það að verslunin í Kringlunni yrði ekki starfhæf í lengri tíma en í stað þess að leggja árar í bát lögðum við upp með að horfa frekar á stöðuna sem tækifæri til þess að stokka aðeins upp hjá okkur og bæta þjónustustig í verslun okkar á Stórhöfða 25.“

Að sögn Kristins var starfsfólk verslunarinnar í Kringlunni fært upp á Stórhöfða en sú verslun hefur stækkað umtalsvert. Þá hafði bruninn ekki áhrif á veltu fyrirtækisins, sem Kristinn segir hafa aukist.

Eirberg var stofnað árið 2000, þegar heilbrigðisvörudeild Ó. Johson & Kaaber og Hjálpartækjabanki Össurar runnu saman. 

Um 30 manns starfa hjá fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×