Tottenham vann 2-1 á útivelli gegn Ferencvaros í annarri umferð Evrópudeildarinnar. Lundúnarliðið hefur unnið báða sína leiki í keppninni hingað til.
Heimamenn Ferencvaros byrjuðu af miklum krafti, sköpuðu færi með hröðum sóknarleik og skoruðu mark snemma, en það var dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum.
Eftir um tuttugu mínútur tók Tottenham við sér. Lucas Bergvall reyndi þá að þræða boltann í gegn á Will Lankshear, sendingin var hálfmisheppnuð og fór af varnarmanni, en rataði á endanum á annan samherja, Pape Sarr, sem kláraði færið.
Skömmu síðar átti Tottenham skot í stöng, í upphafi seinni hálfleiks fékk varamaðurinn Timo Werner svo frábært færi og sólaði markmanninn en missti boltann of langt frá sér og skaut í hliðarnetið.
Svo virtist sem boltinn vildi ekki inn fyrir Tottenham, en það breyttist undir lokin. Brennan Johnson tókst með góðu skoti á 86. mínútu að koma Tottenham tveimur mörkum yfir.
Sem betur fer myndu stuðningsmenn liðsins segja, því Ferencvaros skoraði í uppbótartíma. Barnabás Varga var þar að verki, lúrði á fjærstönginni og beið eftir fyrirgjöf Cristians Ramirez.
Fleiri urðu mörkin þó ekki og Tottenham slapp með stigin þrjú. Liðið er í öðru sæti Evrópudeildarinnar á eftir Lazio, sem vann 4-1 gegn Nice í kvöld og er ofar á markatölu.