Fótbolti

Andri Lucas: „Vona að pabbi hafi haldið með mér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það yljaði eflaust mörgum um hjartaræturnar að sjá Guðjohnsen spila á Stamford Bridge á ný.
Það yljaði eflaust mörgum um hjartaræturnar að sjá Guðjohnsen spila á Stamford Bridge á ný. getty/Sebastian Frej

Þrátt fyrir að Gent hafi tapað fyrir Chelsea segir Andri Lucas Guðjohnsen að endurkoman á Stamford Bridge hafi verið ánægjuleg.

Andri Lucas var í byrjunarliði Gent og lagði upp fyrra mark liðsins í 4-2 tapi fyrir Chelsea í gær.

Pabbi Andra Lucasar, Eiður Smári, lék með Chelsea á árunum 2000-06 og var í stúkunni á Stamford Brigde í gær ásamt elsta syni sínum, Sveini Aroni.

Andri Lucas þekkir vel til á Brúnni og segir að úrslit gærkvöldsins hafi ekki eyðilagt minningar hans frá vellinum.

„Nei, að sjálfsögðu ekki. Ef eitthvað er þá gerir þetta minningarnar enn betri. Að vera hérna sem ungur strákur og snúa svo aftur sem fótboltamaður er eitthvað sem ég mun varðveita og þetta er frábært kvöld fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Andri í viðtali við TNT eftir leikinn. 

Hann var svo spurður með hverjum pabbi hans hefði haldið með í leiknum í gær.

„Ég vona að hann hafi haldið með mér. Nei, að sjálfsögðu reynir hann að horfa á alla leiki með okkur bræðrunum. Hann gaf mér ráð fyrir leikinn og studdi mig áfram.“

Andri Lucas gekk í raðir Gent frá Lyngby í sumar. Hann hefur skorað tvö mörk fyrir liðið og lagt upp tvö í fjórtán leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×