Fótbolti

Diarra fagnar: Reglur FIFA stangast á við lög ESB

Sindri Sverrisson skrifar
Lassana Diarra lék síðast með PSG áður en skórnir fóru á hilluna fyrir fimm árum.
Lassana Diarra lék síðast með PSG áður en skórnir fóru á hilluna fyrir fimm árum. Getty/Thananuwat Srirasant

Evrópudómstólinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að sumar af reglum FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, stangist á við lög Evrópusambandsins varðandi frelsi til flutninga.

Dómstóllinn komst að þessari niðurstöðu eftir áralanga deilu Lassana Diarra, fyrrverandi leikmanns franska landsliðsins og fjölda stórliða, við FIFA.

Diarra hafði skrifað undir samning til fjögurra ára við Lokomotiv Moskvu í Rússlandi árið 2013 en samningnum var rift ári síðar þar sem Diarra sakaði félagið um að hafa lækkað laun. Lokomotiv Moskva leitaði til FIFA og Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, dæmdi svo félaginu í hag og varð Diarra að greiða þvi 10,5 milljónir evra.

Diarra sagði reglur FIFA hafa hindrað sig í að komast í nýtt félag, þar sem að nýtt félag yrði þar með skuldbundið ásamt honum til að greiða Lokomotiv bætur.

„Reglurnar sem um er að ræða hindra frjálst flæði atvinnuleikmanna sem vilja sinna sínu starfi hjá nýju félagi,“ sagði í yfirlýsingu dómstólsins.

Diarra segir að sér hafi boðist að fara til belgíska félagsins Charleroi, árið 2015, en það hafi ekki gengið eftir vegna reglna FIFA. Hann kærði því FIFA og belgíska sambandið, til belgískra dómstóla, og krafðist sex milljóna evra.

Málið er enn hjá belgískum dómstólum og því var því vísað til Evrópudómstólsins til að fá mat hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×