Enski boltinn

„Bara lygarar og svindlarar sem segja að hann sé vanda­málið“

Sindri Sverrisson skrifar
Mario Lemina og Jörgen Strand Larsen fara yfir málin eftir tapið gegn Brentford um helgina.
Mario Lemina og Jörgen Strand Larsen fara yfir málin eftir tapið gegn Brentford um helgina. Getty/Naomi Baker

Fátt annað en fall virðist blasa við Wolves í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Liðið situr á botninum en fyrirliðinn Mario Lemina segir fráleitt að kenna stjóranum Gary O‘Neil um það.

Wolves tapaði 5-3 gegn Brentford á útivelli á laugardaginn og hefur því tapað sex af sjö leikjum sínum í deildinni hingað til, auk þess að gera jafntefli við Nottingham Forest. Þá féll liðið út gegn Brighton í enska deildabikarnum.

„Eins og við erum að spila núna, miðað við hvernig við erum að verjast, þá endar það með því að við föllum og við verðum að horfast í augu við það núna,“ sagði Lemina.

O‘Neil þarf núna að nýta tímann sem fæst í hléi vegna landsleikja, til að fá fram breytingar hjá sínu liði. Hann er hins vegar ekki vandamálið, að sögn fyrirliðans:

„Nei, Gary er ekki vandamálið. Hann er að gera mjög vel. Það eru bara lygarar og svindlarar sem segja að hann sé vandamálið, því hann hefur gefið okkur mikið. Margt sem við höfðum ekki áður.

Hann hefur gefið fjölda leikmanna tækifæri og núna verðum við að endurgreiða honum, því við erum ekki að gera það í augnablikinu,“ sagði Lemina, ánægður með sinn knattspyrnustjóra.

„Ég held að stuðningsmennirnir dýrki hann líka. En það er skiljanlegt að svona viðhorf heyrist vegna úrslitanna,“ sagði Lemina.

Úlfarnir eiga ekki auðvelt verk fyrir höndum eftir landsleikjahléið því þeir mæta meisturum Manchester City og svo Brighton á útivelli.

„Við höfum engar afsakanir. Við verðum bara að setja hausinn undir okkur og leggja okkur alla fram,“ sagði Lemina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×