Erlent

Úr ó­veðri í kröftugasta felli­byl ársins á sólar­hring

Samúel Karl Ólason skrifar
Fellibylurinn Milton hefur safnað krafti á undraverðum hraða.
Fellibylurinn Milton hefur safnað krafti á undraverðum hraða. AP/NOAA

Fellibylurinn Milton hefur stækkað mjög hratt yfir Karíbahafinu og er nú skilgreindur sem fimmta flokks fellibylur og sá kröftugasti á þessu ári. Hann stefnir hraðbyr að Flórída en Helena, annar öflugur fellibylur fór þar einnig yfir á dögunum og olli miklum skaða.

Talið er að fellibylurinn muni ná landi í Flórída á miðvikudagskvöld og eru embættismenn þegar byrjaðir að byrja fólk um að flýja svæðið þar sem talið er að Milton muni ná landi.

„Þetta óveður, lítur út eins og það gæti verið mun verra en Helena,“ hefur CNN eftir Jim Boyd, þingmanni á ríkisþingi Flórída. Hann sagði fólki að flýja, ef það væri á svæði sem ætti að rýma og ekki taka neina sénsa. Þetta yrði líklega lífshættulegt óveður.

Embættismenn hafa varað við því að sjávarstaða gæti hækkað um allt að fjóra metra, gangi spár eftir.

Milton fór frá því að vera skilgreindur sem óveður í að verða kröftugasti fellibylur ársins á einungis sólarhring. Undraverða styrkingu Miltons má rekja til óvenjulega hlýs Karíbahafs en fellibyljir draga í einföldu máli sagt, í sig kraft úr hlýjum sjó.

Hér að neðan má sjá hreyfimynd sem sýnir glögglega hvernig Milton hefur safnað krafti og stækkað á síðasta sólarhring.

Til að vera skilgreindur sem fimmta stigs, þarf vindhraði fellibyls að vera meiri en sjötíu metrar á sekúndu. Einungis sjö fellibyljir hafa náð fimmta stigi á þessum hraða og einungis einn hefur gert það hraðar en Milton, samkvæmt frétt Washington Post

Þá er Milton sagður vera kröftugasti fellibylurinn sem myndast hefur svo seint á árinu á Mexíkóflóa frá 1966. Þegar kemur að vindstyrk, er fellibylurinn í fjórða sæti síðan mælingar hófust.


Tengdar fréttir

„Fordæmalausar“ hörmungar eftir Helenu

Neyðarástand ríkir víða í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Helena olli þar „fordæmalausum“ hörmungum. Úrhellið sem fylgdi Helenu olli þar stórum skyndiflóðum og aurskriðum og eru minnst 37 dánir en búist er við að talan muni hækka enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×