Umræðan

Aug­ljós tæki­færi Ocu­lis

Halldór Kristmannsson skrifar

Líftæknifyrirtækið Oculis vinnur að þróun augnlyfja sem munu hafa byltingarkennd áhrif á meðferðir við alvarlegum augnsjúkdómum um allan heim. Markmið fyrirtækisins er að bæta sjón þeirra sem glíma við alvarlega augnsjúkdóma og stórbæta meðferðarúrræði. Með augndropum fyrirtækisins (OCS-01) verður hægt að bjóða nýja meðferð á sjónhimnubjúg í sykursýki og meðhöndlun á bólgu og verkjum eftir skurðaðgerðir. Skortur hefur verið á meðferðum sem ekki fela í sér inngrip með skurðaðgerðum eða laser- og sprautumeðferðum. Í því felast tækifæri Oculis.

Ég gerðist nýlega hluthafi í Oculis og er bjartsýnn á framtíðarhorfur fyrirtækisins. Áður en ég ákvað að fjárfesta í Oculis horfði ég sérstaklega til eftirfarandi þátta:

  1. Byltingarkennd meðferð: Augndropar fyrirtækisins (OCS-01) munu hafa byltingarkennd áhrif á meðferðir við alvarlegum augnsjúkdómum á markaði sem er í örum vexti. Skortur er á meðferðum án inngripa og stór hluti sjúklinga hefur ekki nýtt sér meðferðir sem í boði eru. Augndroparnir eru byggðir á Optireach® tækni félagsins og verður varið með einkaleyfi til ársins 2040.
  2. Jákvætt sjóðsstreymi 2025: Sótt verður um markaðsleyfi fyrir fyrsta lyf fyrirtækisins (OCS-01) í byrjun næsta árs. Sala á lyfinu getur að öllum líkindum hafist í Bandaríkjunum, stærsta lyfjamarkaði heims, fáeinum mánuðum síðar. Það yrði mikil viðurkenning fyrir Oculis að fá samþykki bandaríska lyfjaeftirlitsins („FDA“) á sínu fyrsta augnlyfi.
  3. Yfirtöku „target“: Það má segja að Oculis sé byggt upp til að selja frá sér einstök lyf eða reksturinn í heild sinni. Fyrirtækið býr ekki yfir framleiðslugetu og hefur ekki sölumenn til að markaðssetja lyf sín til lækna og söluaðila. Sá hluti yrði í höndum þriðja aðila. Þróunarstarf fyrirtækisins er mjög fókuserað á tiltekna tækni sem verður varin með einkaleyfum og er í raun „easy add-on“ fyrir stór lyfjafyrirtæki á þessu sviði. Telja má fullvíst að margir renni hýru auga til Oculis um þessar mundir.
Ef við horfum á nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum í Bandaríkjunum má sjá fyrir sér að OCS-01 verði keypt út úr rekstrinum eða Oculis tekið yfir í heilu lagi á umtalsvert hærra verði en núverandi markaðsvirði.

Jafnframt má benda á að stjórnendateymi Oculis virðist öflugt og mikilvægir áfangar hafa náðst í rekstri á undanförnum misserum. Þá er fyrirtækið vel fjármagnað og hluthafahópurinn breiður. Alþjóðlegir fjárfestingasjóðir á sviði heilbrigðisvísinda eiga drjúgan hlut í Oculis og áhugi fjárfesta vestanhafs hefur farið vaxandi.

Augljóst „target“

Ef við horfum á nýlegar yfirtökur á sambærilegum fyrirtækjum í Bandaríkjunum má sjá fyrir sér að OCS-01 verði keypt út úr rekstrinum eða Oculis tekið yfir í heilu lagi á umtalsvert hærra verði en núverandi markaðsvirði. Það veltur þó eðlilega á ýmsum þáttum og taka má allan samanburð með fyrirvara.

Til frekari glöggvunar, tek ég dæmi af tveimur tiltölulega nýlegum viðskiptum sem tengjast lyfjum með sambærilega virkni og OCS-01. Sérstaklega á samanburðurinn vel við lyf Xiidra á meðan lyf Restoret er að hluta enn í klínískum rannsóknum og mun hugsanlega hafa breiðari meðferðarvirkni.

Átta erlendir greiningaraðilar fylgjast grannt með Oculis og gefa reglulega út verðmat sem endurspeglar áhuga bandarískra fjárfesta. Þeir eru á einu máli og sjá kauptækifæri í Oculis.
  • Júní 2023 – lyfjafyrirtækið Bausch+ Lomb keypti augnlyfjafyrirtækið Xiidra af Novartis fyrir allt að 2,5 milljarða Bandaríkjadala (4,5 X virði Oculis). Endanlegt kaupverð byggir á tilteknum áföngum og endanlegt kaupverð kann að lækka.
  • Maí 2024 - lyfjafyrirtækið Merck yfirtók augnlyfjafyrirtækið Restoret með árangurstengdri greiðslu að fjárhæð allt að þremur milljörðum Bandaríkjadala (5,5 X virði Oculis). Restoret er með lyf í þróun sem getur meðhöndlað sjónhimnubjúg í sykursýki (DME lyf) sem er sambærilegt OCS-01 að því leyti.

Hvað segja greiningaraðilar?

Átta erlendir greiningaraðilar fylgjast grannt með Oculis og gefa reglulega út verðmat sem endurspeglar áhuga bandarískra fjárfesta. Þeir eru á einu máli og sjá kauptækifæri í Oculis. Verðmatsforsendur eru þó nokkuð ólíkar, enda hefur fyrirtækið ekki gefið út tekjuáætlanir eða kostnað við meðferðir. Verðmötin miðast flest við 2-3 sinnum núverandi virði Oculis. Greiningaraðilar horfa sérstaklega til OCS-01 en jafnframt eru gefnar ákveðnar líkur á markaðssetningu OCS-02 (til meðhöndlunar augnþurrks) á árinu 2028. Þriðja lyf fyrirtækisins, OCS-05 (til meðhöndlunar á hrörnun eða rýrnun taugavefs í auga), er þó skemur á veg komið og hefur að svo stöddu ekki áhrif á verðmat. Líkt og sjá má á meðfylgjandi töflu miðast nýleg verðmöt við gengi 22-37 Bandaríkjadali á hlut og tekur mið af stöðu OCS-01 fyrr á þessu ári. Ef OCS-01 og OCS-02 verða markaðssett í Bandaríkjunum í þeim meðferðaflokkum sem stefnt er að, verður gengi hlutabréfanna 42,5-62,5 Bandaríkjadalir á hlut, gangi spá neðangreindra greiningaraðila eftir. Þegar þetta er skrifað er gengi Oculis 14,28 Bandaríkjadalir á hlut í NASDAQ kauphöllinni í Bandaríkjunum og opnunargengi þann 8. október er 1.870 krónur hér á landi.

Gott er að hafa í huga að lyf Oculis geta nýst til meðferðar á nokkrum ólíkum sjúkdómum og heildarstærð markaðarins veltur á ýmsum forsendum, sérstaklega þar sem horft er til þess að bjóða meðferðir til vaxandi hóps sjúklinga sem hefur ekki fengið meðhöndlun. Ef OCS-01 fær markaðsleyfi fyrir meðferðir við bæði sjónhimnubjúg í sykursýki (DME markaður, umsókn lögð inn 1F 2026) og meðhöndlun á bólgu og verkjum eftir skurðaðgerðir (umsókn lögð inn 1F 2025), geta sölutekjur náð hámarki í 700-1100 milljónum Bandaríkjadala, að mati Pareto Securities í Bandaríkjunum (ágúst 2024).

Hvers virði er Oculis?

Áhugavert hefur verið að fylgjast með hlutabréfaverði Oculis á þessu ári, mati greiningaraðila og viðhorfs fjárfesta hér á landi. Jákvæðir áfangar hafa náðst í klínískum rannsóknum og samskipti við FDA eru hafin vegna væntanlegrar markaðsleyfisumsóknar í byrjun næsta árs. Hins vegar hafa líkur á farsælli markaðssetningu OCS-01 ekki tekið sýnilegum breytingum í verðmati, sem er sá þáttur sem hefur mest áhrif til hækkunar. Ég kýs að horfa á þetta þannig að með hverjum deginum sem líður aukast líkur á markaðssetningu og virði Oculis hækkar, að minnsta kosti í mínum huga. Ég tel aðeins tímaspursmál hvenær fjárfestar átta sig á þessu. Þessi lykilforsenda í verðmötum hefur staðið óbreytt í nokkurn tíma. Jafnvel þó hlutabréf Oculis hafi hækkað nokkuð undanfarna daga er að mínu mati fjarri lagi að virði fyrirtækisins á markaði endurspegli verðmæti væntanlegrar markaðsumsóknar OCS-01. Mikilvægt er þó að fjárfestar fylgist vel með upplýsingagjöf fyrirtækisins og áföngum á næstu mánuðum.

Ég kýs að horfa á þetta þannig að með hverjum deginum sem líður aukast líkur á markaðssetningu og virði Oculis hækkar, að minnsta kosti í mínum huga. Ég tel aðeins tímaspursmál hvenær fjárfestar átta sig á þessu. Þessi lykilforsenda í verðmötum hefur staðið óbreytt í nokkurn tíma.

Takmörkuð þekking er meðal markaðsaðila hér á landi á sérhæfðum líftæknifyrirtækjum eins og Oculis. Það hefur því verið krefjandi verkefni fyrir stjórnendur fyrirtækisins að miðla skýrri fjárfestasögu hér á landi. Það eru líklega fáir sem átta sig á því að markaðsvirði Oculis er um þrisvar sinnum hærra en Símans, ríflega þriðjungi meira en Eimskips og sambærilegt virði Kviku banka, um 80 milljarðar króna. Gangi áætlanir stjórnenda eftir má búast við að Oculis verði í hópi verðmætustu fyrirtækja í kauphöllinni hér á landi.


Höfundur er búsettur í Sviss og rekur eigið ráðgjafafyrirtæki, Aviva Communication, og sinnir fjárfestingum í verðbréfum og fasteignum. Hann og tengdir aðilar eru hluthafar í Oculis.


Tengdar fréttir

Ocu­lis að klára milljarða hluta­fjár­út­boð og á­formar skráningu í Kaup­höllina

Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, stofnað af tveimur íslenskum prófessorum, er núna á lokametrunum með að klára stóra hlutafjáraukningu frá meðal annars íslenskum fjárfestum og setur stefnuna í kjölfarið á skráningu í Kauphöllina hér heima. Félagið yrði þá tvískráð – því var fleytt á markað í Bandaríkjunum fyrir rétt rúmlega einu ári – en það er í dag með markaðsvirði upp á liðlega sextíu milljarða króna.

Breskur eigna­stýringar­risi byggir upp stöðu í Ocu­lis

Breska eignarstýringarfélagið Standard Life Aberdeen er komið í hóp stærri hluthafa augnlyfjaþróunarfyrirtækisins Oculis, stofnað af tveimur íslenskum prófessorum og skráð á markað vestanhafs, eftir að hafa byggt upp stöðu í félaginu undir lok síðasta árs. Hlutabréfaverð Oculis hefur hækkað um nærri fimmtán prósent frá áramótum.






×