Skoðun

Þú ert númer 1155 í röðinni

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Ímyndið ykkur hvernig það er að þurfa að sinna verkefnum dagslegs lífs án þess að heyra almennilega. Hvernig það er að sinna börnum sínum, mökum og foreldum þannig. Setið ykkur í spor þeirra sem daglega ganga til vinnu við þessar aðstæður. Hvernig haldið þið að það gangi að sinna tómstundum? Setjið ykkur í þessi spor.

Þetta er staða rúmlega 2.000 manns sem nú eru skráð á biðlista eftir heyrnarþjónustu frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Fullorðnir eru látnir bíða að meðaltali í tvö ár á þessum biðlista, börn þurfa ekki að þola nema sjö mánuði að meðaltali.

Stórkostlegar ógöngur

Rúm­lega helm­ing­ur þeirra sem eru á biðlista bíður að meðaltali í tvö ár eft­ir þjón­ustu. Biðtími er mis­mun­andi eft­ir þjón­ustu en mest­ur er biðtím­inn hjá full­orðnum ein­stak­ling­um sem þurfa þjón­ustu vegna heyrn­ar­tækja og mæl­inga. 1.155 eru á biðlista eft­ir þeirri þjón­ustu og er biðtími þar að meðaltali tvö ár. Meira að segja þau sem þurfa aðstoð við heyrnartæki sem þau eru þegar komin með fá sæti á biðlistanum og eru föst þar í 1-2 mánuði.

Þessar upplýsingar eru byggðar á gögnum frá Heyrn­ar- og tal­meina­stöð Íslands frá því í mars. Staðan hefur ekki lagast. Kristján Sverrisson, forstjóri stofnunarinnar, hefur verið ómyrkur í máli varðandi stöðuna og sagt enda­lausan niður­skurð og fjár­svelti, aðstöðuleysi og mann­eklu hafa leitt til þess að op­in­ber heyrn­arþjón­usta á Íslandi sé kom­in í stór­kost­leg­ar ógöng­ur.

Skilningsleysi stjórnvalda

Þetta var sem sagt staðan þegar fjárlög næsta árs voru unnin í sumar. Þar var niðurstaðan svo að útgjöld til málaflokksins eru áætluð 549 milljónir króna en fjárlögin gera ráð fyrir 231,6 milljónum. Stjórnvöld ætla Heyrnar- og talmeinastöð að loka gati upp á 318 milljónir með sértekjum á sama tíma og vitað er að gjaldskrá stofnunarinnar er háð lögum og reglugerðum sem þýðir að hún getur ekki aflað nema um fjórðungs þessarar fjárhæðar miðað við núverandi húsnæði og mannafla.

Með öðrum orðum, vegna þess aðbúnaðar sem stjórnvöld búa Heyrnar- og talmeinastöðinni getur stofnunin einfaldlega ekki aflað sértekna á þann hátt sem stjórnvöld vilja að hún geri. Fagfólkið þar talar fyrir daufum eyrum þegar reynt er að gera stjórnvöldum grein fyrir alvarleika málsins. Á meðan bíða þúsundir á biðlista eftir nauðsynlegri aðstoð. Þetta er glórulaus staða og áhrifanna gætir enn víðar. Vegna viðvarandi fjárskorts hefur Heyrnar- og talmeinastöð þurft að leggja niður 18 mánaða eftirlit barna sem grunur leikur á að séu með málþroska röskun. Hugsið ykkur! Foreldar og forráðamenn barna geta ekki leitað til neinnar stofnunar með grun um seinkaðan málþroska eða einhvers konar tjáskiptavanda fyrir börn á þessum aldri.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands á samkvæmt lögum að huga að heyrnarheilsu og sérhæfðrar talmeinaþjónustu heillar þjóðar. Við þurfum að sjá sóma okkar í því að fagfólki sem þar starfar sé gert kleift að uppfylla lögin í okkar þágu.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×