Erlent

Tvö eftir í leiðtogakjöri breskra í­halds­manna

Kjartan Kjartansson skrifar
Næsti leiðtogi Íhaldsflokksins verður annað hvort Robert Jenrick (t.v.) eða Kemi Badenoch (t.h.).
Næsti leiðtogi Íhaldsflokksins verður annað hvort Robert Jenrick (t.v.) eða Kemi Badenoch (t.h.). Vísir/Getty

Val flokksmanna breska Íhaldsflokksins stendur nú á milli tveggja fyrrverandi ráðherra flokksins eftir að James Cleverly, fyrrverandi innan- og utanríkisráðherra, helltist úr lestinni í leiðtogakjöri þeirra í dag. Úrslita er ekki að vænta fyrr en í byrjun nóvember.

Íhaldsflokkurinn beið sögulegan ósigur undir forystu Rishi Sunak í þingkosningum í júlí. Sunak sagði í kjölfarið af sér sem leiðtogi flokksins.

Kosið var á milli Cleverly, Roberts Jenrick, fyrrverandi innflytjenda- og húsnæðismálaráðherra, og Kemi Badenoch, fyrrverandi viðskiptaráðherra í atkvæðagreiðslu þingmanna flokksins. Badenoch fékk flest atkvæði, eða 42, Jenrick fékk einu atkvæði færra en Cleverly var í þriðja sæti með 37 atkvæði.

Úrslitin þóttu koma verulega á óvart en búist var við því að Cleverly kæmist í lokaumferðina. Hann hlaut flest atkvæði í þriðju umferð leiðtogakjörsins í gær og ræða hans á landsfundi flokksins í síðustu viku mæltist vel fyrir. Breska ríkisútvarpið BBC segir að þingmenn hafi tekið andköf þegar úrslitin voru tilkynnt í þingsal í dag.

James Cleverly var spáð áfram í lokaslag leiðtogakjörsins en var óvænt felldur í næstsíðustu umferð í dag.Vísir/EPA

Kosið verður á milli þeirra Jenrick og Badenoch og eiga úrslitin að liggja fyrir 2. nóvember. Leiðtogakjörið hefur staðið yfir frá því í síðasta mánuði. Priti Patel, fyrrverandi innanríkisráðherra, er á meðal þeirra sem þingmenn flokksins höfnuðu í fyrri umferðunum.

Badenoch hefur verið þingkona Norðvestur-Essex frá árinu 2017. Hún var viðskiptaráðherra í stjórn Sunak frá febrúar 2023 til kosninganna í sumar og gegnir nú stöðu skuggaráðherra húsnæðismála. Badenoch er borin og barnfædd í London en foreldrar hennar eru nígerískir innflytjendur.

Jenrick var ráðherra innflytjendamála frá 2022 til 2023 og ráðherra húsnæðismála frá 2019 til 2021. Hann hefur setið á þingi fyrir Newark undanfarin tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×