Íhaldsflokkurinn beið sögulegan ósigur undir forystu Rishi Sunak í þingkosningum í júlí. Sunak sagði í kjölfarið af sér sem leiðtogi flokksins.
Kosið var á milli Cleverly, Roberts Jenrick, fyrrverandi innflytjenda- og húsnæðismálaráðherra, og Kemi Badenoch, fyrrverandi viðskiptaráðherra í atkvæðagreiðslu þingmanna flokksins. Badenoch fékk flest atkvæði, eða 42, Jenrick fékk einu atkvæði færra en Cleverly var í þriðja sæti með 37 atkvæði.
Úrslitin þóttu koma verulega á óvart en búist var við því að Cleverly kæmist í lokaumferðina. Hann hlaut flest atkvæði í þriðju umferð leiðtogakjörsins í gær og ræða hans á landsfundi flokksins í síðustu viku mæltist vel fyrir. Breska ríkisútvarpið BBC segir að þingmenn hafi tekið andköf þegar úrslitin voru tilkynnt í þingsal í dag.

Kosið verður á milli þeirra Jenrick og Badenoch og eiga úrslitin að liggja fyrir 2. nóvember. Leiðtogakjörið hefur staðið yfir frá því í síðasta mánuði. Priti Patel, fyrrverandi innanríkisráðherra, er á meðal þeirra sem þingmenn flokksins höfnuðu í fyrri umferðunum.
Badenoch hefur verið þingkona Norðvestur-Essex frá árinu 2017. Hún var viðskiptaráðherra í stjórn Sunak frá febrúar 2023 til kosninganna í sumar og gegnir nú stöðu skuggaráðherra húsnæðismála. Badenoch er borin og barnfædd í London en foreldrar hennar eru nígerískir innflytjendur.
Jenrick var ráðherra innflytjendamála frá 2022 til 2023 og ráðherra húsnæðismála frá 2019 til 2021. Hann hefur setið á þingi fyrir Newark undanfarin tíu ár.