Erlent

Biden og Netanyahu ræddu að­gerðir Ísrael gegn Íran

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Biden og Netanyahu ræddu saman í síma í gær, meðal annars um hefndaraðgerðir Ísrael gegn Íran.
Biden og Netanyahu ræddu saman í síma í gær, meðal annars um hefndaraðgerðir Ísrael gegn Íran. AP

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ræddust við í síma í gær, í fyrsta sinn í sjö vikur. 

Í hálftímalöngu samtali ræddu þeir meðal annars áform Ísraela um hefndaraðgerðir gegn Íran, vegna eldflaugaárásar síðarnefnda ríkisins á Ísrael í síðustu viku.

Kamala Harris, varaforseti og forsetaframbjóðandi Demókrata, tók þátt í viðræðunum að hluta. 

Samkvæmt fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins var símtalið árangursríkt og beinskeytt. 

Skrifstofa Netanjahús hefur þá staðfest að Donald Trump, fyrrverandi forseti og forsetaframbjóðandi Repúblikana, hefði einnig rætt við Netanjahú nýlega.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að Biden sé efins um að láta draga Bandaríkin inn í stríð við Íran, sem talið sé óþarft og hættulegt, á sama tíma og Ísraelar sjái færi til að vinna Írönum, sem lengi hafa verið helsti óvinur Ísraels, mikinn skaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×