Skoðun

Hver á að mennta barnið mitt?

Ólöf Ása Benediktsdóttir skrifar

Ég fagna allri málefnalegri umræðu um menntamál og ég vil bestu hugsanlegu menntun fyrir börnin mín, þar á meðal fyrir son minn sem gengur í Lundarskóla á Akureyri. Sem kennari og núverandi skólastjóri Hrafnagilsskóla vil ég einnig að skólinn minn sé framúrskarandi skóli og að nemendur okkar fái gæða menntun.

Sem skólamanneskja hef ég tekið þátt í umræðu undanfarið um gæði menntunar, læsi, agamál, símanotkun í skólum, líkamlega, andlega og félagslega heilsu barna, vopnaburð, traust og samstarf á milli heimila og skóla og vinnutengda streitu kennara. Ég raunverulega fagna allri málefnalegri umræðu og er sannfærð um að með samstarfi skóla og heimila getum við náð árangri á öllum sviðum menntunar og farsældar barna. Ég hef hins vegar sjaldan lagt orð í belg þegar kemur að kjaramálum kennara. Ég hef oft upplifað að umræðan sé ósanngjörn, óvægin og leiðinleg þegar kemur að kjörum kennara og ég hef frekar viljað beita mér í umræðu um faglegt skólastarf. En þegar staðreyndin er sú að kennarar hafa dregist aftur úr sambærilegum stéttum á almennum vinnumarkaði um tæp 40%, þrátt fyrir auknar kröfur um menntun og aukið vinnuálag, þá er tími til kominn að láta heyra í sér. Verkföllin sem nú hafa verið tilkynnt í níu skólum um allt land eru neyðarúrræði stéttar sem fær ekki störf sín metin að verðleikum. Þetta er úthugsuð aðgerð og þeir skólar sem taka þátt standa vaktina fyrir okkur hin.

Ég vona innilega að það takist að semja áður en til verkfalla kemur en ef ekki þá stend ég með öllum kennurum, sérstaklega kennurum í Lundarskóla á Akureyri.

Höfundur er foreldri í Lundarskóla og skólastjóri Hrafnagilsskóla.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×