Innlent

Hægir á land­risi

Árni Sæberg skrifar
Frá Svartsengi.
Frá Svartsengi. Vísir/Vilhelm

GPS-mælingar á Svartsengissvæðinu sýna vísbendingar um að undanfarið hafi smám saman dregið úr hraða á landrisi. Líkanreikningar, sem byggðir eru á GPS-gögnunum, sýna einnig vísbendingar um að örlítið dragi úr kvikuinnflæði undir Svartsengi.

Í tilkynningu þess efnis á vef Veðurstofunnar segir að að svo stöddu séu þetta litlar breytingar. Áður hafi sambærilegar breytingar orðið á hraða kvikusöfnunarinnar nokkrum vikum fyrir síðustu gos. 

Náið verði fylgst með mælingunum næstu daga og vikur, sem hjálpi til við túlkun og að spá fyrir um mögulega þróun atburðanna.

Ekkert sem bendir til að kvikusöfnun sé að hætta

Á þessum tímapunkti sé ekkert í gögnum Veðurstofunnar sem bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi komi til með að hætta á næstunni.

Frá síðustu goslokum, 5. september, hafi verið lítil jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni en þar hafi einungis um fjörutíu smáskjálftar mælst. Á sama tíma hafi verið jöfn virkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, þar sem hátt í 400 smáskjálftar hafi mælst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×