Fótbolti

„Vonandi getum við nýtt okkur mína kunn­áttu“

Aron Guðmundsson skrifar
Jóhann Berg í baráttunni gegn Svartfellingum í Þjóðadeildinni í síðasta landsleikjaglugga
Jóhann Berg í baráttunni gegn Svartfellingum í Þjóðadeildinni í síðasta landsleikjaglugga Vísir/Hulda Margrét

„Hann er frá­bær þjálfari sem veit ná­kvæm­lega hvernig hann vill spila fót­bolta," segir Jóhann Berg Guðmundsson, fyrir­liði ís­lenska lands­liðsins, sem þekkir vel til þjálfara Wa­les sem Ís­land mætir í Þjóða­deild UEFA í kvöld. Hann vonast til að fólk fjölmenni á leik kvöldsins og að Laugardalsvöllur verði aftur að því vígi sem hann var á sínum tíma.

Jóhann Berg þekkir til Cra­ig Bella­my, nú­verandi lands­liðs­þjálfara Wa­les, frá fyrri tíð en sá var að­stoðar­þjálfari Burnl­ey á árunum 2022 til 2024 á þeim tíma sem Jóhann var leik­maður fé­lagsins. Bella­my tók við velska lands­liðinu í sumar og hefur stýrt því fyrstu tveimur leikjum liðsins í B-deild Þjóða­deildar UEFA.

Bella­my á að baki ansi á­huga­verðan feril sem leik­maður. Feril sem teygir sig til fé­lags­liða á borð við Manchester City, Liver­pool og New­cast­le United. Sem leik­maður lét hann ekki vaða yfir sig, var ó­hræddur við að láta menn heyra það. Al­gjör harð­haus. Eitt­hvað sem ein­kenndi hann líka sem þjálfari að sögn Jóhanns Bergs.

„Já hann gat alveg verið það en líka auð­mjúkur. Frá­bær þjálfari sem veit ná­kvæm­lega hvernig hann vill spila fót­bolta. Ég átti tvö mjög góð ár með honum þó svo að seinna árið hafi verið tölu­vert erfiðara en það fyrra. Við áttum fullt af góðum stundum saman. Ég get ekkert annað en já­kvæða hluti sagt um Cra­ig Bella­my.

Hann hefur bara haft tvo leiki og nokkrar æfingar. Það er erfitt að koma sínum stíl á fram­færi á svona stuttum tíma. Það eru þó á­kveðnir hlutir í leiknum sem maður getur séð og veit hvernig hann vill spila. Vonandi getum við nýtt okkur mína kunn­áttu og séð hvernig þetta allt þróast. En þetta er auð­vitað bara fót­bolta­leikur og allt getur gerst inn á vellinum.“

Hvernig leik býstu við á móti Wa­les?

„Bara vonandi spennandi og skemmti­legum leik. Við vitum að þetta velska lið vill spila fót­bolta. Það er alveg klárt. Við þurfum að leiða þá í ein­hverjar gildrur. Reyna að vinna boltann hátt á vellinum. Sækja svo­lítið á það en um leið vera ó­hræddir við að halda í boltann. Þetta verður vonandi bara spennandi og jafn leikur.“

Aðeins eitt stig skilur að Wales og Ísland í öðru og þriðja sæti riðilsins. Wales með stigi meira en Ísland eftir fyrstu tvær umferðir riðilsins. Nú taka við tveir heimaleikir hjá okkar mönnum. Stórt tækifæri.

Erum við á þeim stað að geta gert kröfu um sex stig úr þessum tveimur komandi heimaleikjum okkar?

„Já fólk má svo sem alveg gera kröfu á það ef það vill. Við förum bara inn í hvern einasta leik til að ná í þrjú stig. Reyna al­gjör­lega að gera okkar besta og sigra alla leiki. Sér­stak­lega á heima­velli. Við viljum auð­vitað að Laugar­dals­völlurinn verði völlur sem lið vilji ekki koma á. Það var staðan hérna áður og fyrr. Mér finnst þetta vera að þróast í þá átt aftur. Vonandi sjáum við sem flesta á Laugar­dals­vellinum og gerum hann að því vígi sem hann var.“

Viðtalið við Jóhann Berg, sem tekið var í gær eftir blaðamannafund íslenska landsliðsins, má sjá hér fyrir ofan.  Leikur Ís­lands og Wa­les í Þjóða­deild UEFA í kvöld verður sýndur í beinni út­sendingu og í opinni dag­skrá á Stöð 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan korter í sjö en upp­hitun hefst hálf­tíma fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×