Erlent

Tíu létust þegar Milton fór yfir Flórída

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hús rifnuðu víða af húsum.
Hús rifnuðu víða af húsum. AP/Rebecca Blackwell

Að minnsta kosti tíu létust þegar fellibylurinn Milton fór yfir Flórída í gær, þar af fimm í samfélagi fyrir eldri borgara í St. Lucie-sýslu, þar sem hvirfilbylur myndaðist áður en Milton gekk á land nærri Sarasota.

Þrír létust í Volusia-sýslu og tveir í St. Petersburg.

Vindhraði náði allt að 193 km/klst og þá náði áhlaðandi allt að þriggja metra hæð, til að mynda í Sarasota, Fort Myers, Venice og öðrum borgum við ströndina. Himininn varð um tíma fjólublár og bílar, bátar, tré og brak fauk langar vegalengdir.

Enn var unnið að björgunaraðgerðum í nótt en að sögn Ron DeSantis, ríkisstjóra Flórída, hafði þá 340 einstaklingum og 49 gæludýrum verið bjargað. Þá var manni komið til hjálpar eftir að bátur hans sökk um það bil 50 kílómetrum frá landi.

Heldur dró úr styrk Milton þegar hann gekk á land og því urðu mannfall og skemmdir ekki jafn miklar og óttast hafði verið. Tryggingafélög hafa þó áætlað að tjón geti numið allt að 60 milljörðum króna en það mun koma í ljós á næstu dögum og vikum.

Allt að 3,5 milljónir manna voru án rafmagns þegar mest var en þeim hafði fækkað þegar leið á daginn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×