Fótbolti

Albert verður ekki kallaður inn í ís­lenska hópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson skoraði þrennu gegn Ísrael í mars og fagnar hér frábæru aukaspyrnumarki með Arnóri Ingva Traustasyni og Hákoni Arnari Haraldssyni.
Albert Guðmundsson skoraði þrennu gegn Ísrael í mars og fagnar hér frábæru aukaspyrnumarki með Arnóri Ingva Traustasyni og Hákoni Arnari Haraldssyni. Getty/David Balogh

Albert Guðmundsson mun ekki spila með íslenska landsliðinu á móti Tyrkjum á mánudagskvöldið þrátt fyrir að Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, hafi nú leyfi til að velja hann á ný.

Albert var í gær sýknaður af ákæru um nauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur og þess vegna mátti velja hann aftur í landsliðið.

„Ég hef ekki haft mikinn tíma til að tala við Albert. Ég sendi honum skilaboð. Ég veit að Jörundur Áki [Sveinsson], yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, talaði við hann," sagði Åge Hareide á blaðamannafundinum í kvöld.

„Ég held að Albert þurfi tíma núna. Andlega eru dómsmál erfið. Ég er ekki viss um að við getum fengið það besta frá honum núna. Vonandi fáum við hann til baka í nóvember en við þurfum að spila gegn Tyrklandi án hans," sagði Hareide.

Albert hefur farið á kostum í ítölsku deildinni og skoraði sigurmark Fiorentina á móti AC Milan á dögunum. Hann lék síðast með íslenska landsliðinu í mars þegar hann skoraði fjögur mörk í tveimur leikjum á móti Ísrael og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×