Fótbolti

Hareide um Orra hjá Sociedad: „Þeir eru góðir í að sjá um Skandinavana“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Orri Óskarsson kom sér í færi í gær og átti flottan leik.
Orri Óskarsson kom sér í færi í gær og átti flottan leik. vísir/Anton

Åge Hareide landsliðsþjálfari Íslands er ánægður með að Orri Steinn Óskarsson hafi valið að ganga til liðs við Real Sociedad á Spáni í sumar. Orri Steinn hefur skorað tvö mörk fyrir spænska liðið á tímabilinu.

Á blaðamannafundi eftir leik Íslands og Wales í gær var Åge Hareide landsliðsþjálfari Íslands spurður út í framherjann Orra Stein Óskarsson og félagaskipti hans til spænska liðsins Real Sociedad. Orri skipti yfir til spænska félagsins í sumar frá FCK í Danmörku og skoraði sín fyrstu mörk í La Liga á dögunum.

„Ég held að Orri verði frábær framherji og það er gott að hann fór til Real Sociedad því þeir hafa haft skandinavíska leikmenn áður. Alexander Sörloth var þar og Alexander Isak líka,“ en hinn norski Sörloth og Isak, sem er frá Svíþjóð, voru nokkuð duglegir að skora fyrir spænska liðið á sínum tíma. Báðir hafa þeir fært sig um set en Sörloth leikur með Atletico Madrid og Isak með Newcastle. 

„Ég held að þeir séu góðir í að sjá um Skandinavana og fá þá til að trúa á sjálfa sig. Ég sé muninn á Orra, hann sagði mér að þjálfarinn sé mjög góður og að hann sé sjálfur að aðlagast vel. Hann veit að hann þarf að vera þolinmóður að bíða eftir sínum mínútum. En hann kann mjög vel við sig.“

Þá segir Åge að á Spáni sé spilaður sókndjarfur bolti sem henti Orra Steini vel.

„Ég held að það sé mjög gott að vera sóknarsinnaður leikmaður og spila og búa á Spáni. Þeir spila sóknarbolta og það mun henta honum vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×