Handbolti

Jafnt í spennandi Ís­lendinga­slag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson er hér í baráttunni í leik með Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson er hér í baráttunni í leik með Gummersbach. Vísir/Getty

Íslendingaliðin Göppingen og Gummersbach áttust í dag við í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Liðin skildu jöfn eftir spennandi leik þar sem Göppingen var nálægt því að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni.

Fyrir leikinn í dag var Gummersbach í 9. sæti deildarinnar með þrjá sigra í fyrstu sex leikjum liðsins en Göppingen í næst neðsta sætinu og enn ekki búið að vinna leik.

Heimamenn í Göppingen byrjuðu betur og komust í 6-3 snemma leiks og eftir það var jafnt á nánast öllum tölum fram að hálfleik. Gestirnir frá Gummersbach náðu þó tveggja marka forystu undir lok hálfleiksins og leiddu 14-13 í hálfleik.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt. Í stöðunni 17-17 skoraði Gummersbach þrjú mörk í röð en heimamenn minnkuðu muninn á ný og lokamínúturnar voru æsispennandi. Göppingen minnkaði muninn í 24-23 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir og jafnaði í 24-24 eftir að Elliði Snær Viðarsson hafði misst boltann í sókninni á undan.

Elliði reyndi skot frá miðju strax eftir jöfnunarmarkið en náði ekki að skora og Göppingen fékk síðustu sóknina og tækifæri til að tryggja sér sigur með tæplega hálfa mínútu á klukkunni. Það tókst ekki og liðin urðu að sættast á jafnan hlut, lokatölur 24-24.

Elliði Snær Viðarsson komst ekki á blað hjá Gummersbach og þá var Teitur Örn Einarsson ekki í leikmannahópi liðsins í dag. Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir heimalið Göppingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×