Körfubolti

Martin hetjan en nærri því skúrkur þegar Alba fór á­fram í bikar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Martin í leik með Alba Berlin.
Martin í leik með Alba Berlin. Vísir/Getty

Alba Berlin mætti liði Crailsheim Merlins í þýska bikarnum í körfubolta í dag. Martin Hermannsson skoraði sigurkörfu Alba í leiknum en var nálægt því að vera skúrkurinn undir lok leiks.

Alba Berlin leikur í efstu deild þýska boltans en Crailsheim í næst efstu deild og flestir bjuggust því við þægilegum leik fyrir gestina frá Berlín.

Sú varð þó alls ekki raunin. Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur, komust í 10-2 og leiddu 26-15 eftir fyrsta leikhlutann. Svipað var uppi á teningunum í öðrum leikhluta. Lið Alba var að elta og heimamenn juku muninn undir lok fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum 43-28 og Martin Hermannsson og félagar í slæmum málum.

Lið Crailsheim hélt frumkvæðinu í þriðja leikhluta og þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum var munurinn ennþá níu stig. Þá settu leikmenn Alba í lás í vörninni. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt og jöfnuðu metin í 72-72 þegar tvær og hálf mínúta var eftir.

Í stöðunni 74-74 var brotið á Martin með fimm sekúndur eftir á klukkunni. Martin setti annað vítið niður og kom Alba Berlín í eins stigs forystu. Heimamenn tóku leikhlé og stilltu upp í kerfi. Því lauk með þriggja stiga skoti þar sem Martin braut á Tyreese Blunt leikmanni Crailsheim í þriggja stiga skoti um leið og tíminn rann út.

Blunt fór á vítalínuna en misnotaði öll þrjú vítaskotin og Alba Berlin fagnaði ótrúlegum sigri.

Martin Hermannsson lék í rúmar tuttugu og sex mínútur með Alba Berlin í dag. Hann skoraði tíu stig, tók fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×