„Ég vorkenni honum mjög mikið. Ég komst að því að það að vera borgarstjóri Reykjavíkur er eitt erfiðasta starf sem hægt er að vinna. Vegna þess að þetta eru svo mörg störf,“ segir Jón í viðtali við Snorra Másson ritstjóra í hlaðvarpi hans.
Jón stefnir nú á þingframboð undir merkjum Viðreisnar en hann var borgarstjóri fyrir hönd Besta flokksins á árunum 2010-2014. Einar Þorsteinsson hefur verið borgarstjóri frá ársbyrjun en var kjörinn í borgarstjórn árið 2022 í miklum kosningasigri Framsóknarflokksins. Þar hlaut flokkurinn um 19 prósent atkvæða en mælist nú með 4 prósenta fylgi.
„Þetta eru í rauninni fjögur störf. Þú ert æðsti yfirmaður borgarinnar, þú ert pólitískur leiðtogi minnihlutans, þú ert andlit borgarinnar gagnvart og svo ertu einhvers konar opinber persóna. Þetta er svolítið eins og að vera frægur, að þetta er 24 klukkutíma á sólarhring. Þú ert ekki borgarstjóri til klukkan fimm. Þú heldur það kannski en þú ert alltaf borgarstjóri.“
Jón reyndist, þegar upp var staðið, þriðji borgarstjórinn til að ljúka kjörtímabili sem slíkur frá árinu 1982.
„Þú ert í rauninni embættismaður. Yfirmaður. Það erfiðasta sem ég hef þurft að gera í lífinu hefur verið að segja upp fólki. Það er ekkert sem er jafnmikið eitur í mínum beinum og gegn mínum persónuleika að ákveða að eitthvað fólk eigi ekki lengur að hafa vinnuna sína.“
Samúð Jóns er nú öll með Einari.
„Þannig að jú, ég dauðvorkenni Einari. Þegar ég sé viðtöl við hann og sé honum bregða fyrir, þá svona hugsa ég: „Ohh.““