Enski boltinn

Sir Alex slapp ekki við niður­skurðar­hnífinn hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs og Alex Ferguson á góðri stundu.
Ryan Giggs og Alex Ferguson á góðri stundu. Mynd/Nordic Photos/Getty

Nýir eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United hafa verið duglegir að skera niður hjá félaginu og það virðist hreinlega enginn vera óhultur hjá félaginu.

The Athletic segir frá því í dag að sjálfur Sir Alex Ferguson hafi ekki sloppið við niðurskurðarhnífinn hjá INEOS mönnum.

Ferguson fékk milljónir punda á hverju ári fyrir starf sitt sem sendiherra og ráðgjafi félagsins.

INEOS ákvað hins vegar að segja upp þeim samningi til að spara pening. Rektur félagsins hefur verið tekinn algjörlega i gegn eftir innkomu fyrirtækis Sir James Ratcliffe.

Það vekur samt athygli að þeir ákveði að slíta tengslin við goðsögnina.

Ferguson er sigursælasti knattspyrnustjóri Manchester United frá upphafi og félagið hefur ekki unnið enska meistaratitilinn eða Meistaradeildina síðan að hann hætti sem knattspyrnustjóri félagsins árið 2013.

Sir Alex var stjóri United frá 1986 til 2013 og félagið vann 38 titla á þessum 26 árum þar af ensku úrvalsdeildina þrettán sinnum, enska bikarinn fimm sinnum og Meistaradeildina tvisvar.

Ferguson er oðrinn 82 ára gamall en hann fæddist á Gamlársdag 1941.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×