Handbolti

„Ég held að þetta sé það besta sem gat komið fyrir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsmanna, er á heimavelli í kvöld en leikurinn fer samt ekki fram í Reykjavík.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsmanna, er á heimavelli í kvöld en leikurinn fer samt ekki fram í Reykjavík. Vísir/Anton Brink

Óskar Bjarni Óskarsson stýrir Valsmönnum á heimavelli í kvöld en leikurinn fer þó ekki fram á Hlíðarenda heldur í Hafnarfirði.

Valsmenn mæta Porto í Evrópudeildinni í kvöld en leikurinn fer fram í Kaplakrika þar sem FH-ingar mæta síðan þýska liðinu Gummersbach strax á eftir. Liðin sameinuðust um að búa til Evróputvennu.

„Ég held að þetta sé það besta sem gat komið fyrir. 95 ára afmæli hjá FH og frábært hjá þessum tveimur stórum klúbbum að sameinast um þetta,“ sagði Óskar Bjarni í viðtali við Val Pál Eiríksson.

„Fyrir handboltasamfélagið og íslenskt íþróttalíf að geta mætt og fengið tvo alvöru leiki. Þetta er ekki bara handbolti heldur er þetta að verða alvöru viðburður. Alvöru veisla. Það eru skemmtiatriði, alvöru VIP og það er greining á andstæðingunum,“ sagði Óskar.

„Svo fáum við Íslendingana. Þorstein Leó (Gunnarsson, Porto) og Elliða (Viðarsson, Gummersbach). Teitur (Örn Einarsson, Gummersbach) er því miður ekki ekki með. Svo er Guðjón Valur [Sigurðsson, þjálfari Gummerbach] einn okkar dáðasti íþróttamaður. Hann stefnir í að vera einn af okkar betri þjálfurum og hann er frábær þjálfari,“ sagði Óskar.

„Við Valsmenn erum stoltir að fá að mæta Þorsteini Leó því mér finnst hann vera búinn að spila vel í Porto. Hann er með góðan þjálfara og portúgalskur handbolti er frábær. Við erum mjög spenntir,“ sagði Óskar

Hann fór yfir mótherja kvöldsins sem eru meðal annars með stóra og þunga línumenn auk þess að vera duglegir að spila sjö á móti sex.

„Þetta eru góðir handboltamenn sem er mjög gaman að horfa á. Svo færðu Gummersbach og FH á eftir. Þetta er fyrir alla sem hafa áhuga á íþróttum það skemmtilegasta sem þú færð,“ sagði Óskar.

Það má horfa á allt viðtalið við hann hér fyrir neðan. Leikur Vals og Porto hefst klukkan 18.15 en klukkan 20.30 byrjar síðan leikur FH og Gummersbach.

Klippa: Viðtal við Óskar Bjarna fyrir heimaleik á móti Porto



Fleiri fréttir

Sjá meira


×