Skoðun

Styðjum fólk í sjálf­bærari neyslu

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Lausnir á stærstu grænu áskorunum samtímans virðast oft vaxa stjórnmálafólki í augum – hvort sem er umgengni við auðlindir Jarðar, sú virðing sem við sýnum vistkerfum eða hvernig á að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Hluti af vandanum er að þar áttar fólk sig ekki á því að það á gríðarlega öflugan bandamann. Almenningur er nefnilega í liði með þeim sem vilja róttækar aðgerðir. Skýrt dæmi er söfnun á lífrænum úrgangi, sem lengi hafði verið kallað eftir og hófst loksins á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári, og varð til þess að urðun á lífrænum úrgangi dróst saman um 90 prósent nánast samstundis. Strax og heimilin á höfuðborgarsvæðinu fengu tækifæri til að minnka umhverfisáhrif sín, þá gerðu þau það.

Mikil hugarfarsbreyting hefur orðið að undanförnu gagnvart því að endurvinna og nýta hluti betur. Þar spilar inn í að fólk vill vera hluti af lausninni, það áttar sig á því að gegndarlaus neysla Vesturlanda síðustu áratugi er löngu farin að hafa alvarlegar afleiðingar á umhverfi okkar til hins verra.

Þessi hugarfarsbreyting felst meðal annars í ákveðnu ákalli um að hlutir sem við notum í hinu daglega lífi verði betur nýttir; að í staðinn fyrir að henda því sem bilar, trosnar eða eyðileggst þá skuli endurvinna, laga, bæta eða lappa upp á. Hér er kjörið tækifæri fyrir stjórnmálin að stíga inn og hvetja almenning til dáða, með því að breyta lögum og reglum.

Myndi draga úr sóun og hafa jákvæð fjárhagsleg áhrif

Fyrr í haust lagði þingflokkur Pírata til að komið yrði á fót hringrásarstyrkjum til að draga úr kostnaði einstaklinga við viðgerðir. Undir styrkjakerfið myndi falla svokallað lausafé eins og húsgögn, raf- og rafeindatæki, reiðhjóli, fatnaður og skór. Fólk gæti fengið endurgreiddan helming af kostnaði við viðgerð, að hámarki 25 þúsund fyrir hverja viðgerð, og að samanlögðu hámarki 100 þúsund yfir árið.

Hringrásarstyrkir myndu fela í sér talsverðan hvata til að lengja líftíma smærri tækja og hluta, sem aftur dregur úr sóun og minnkar úrgang. Auk þess hafa þeir bein jákvæð fjárhagsleg áhrif á þá einstaklinga sem kjósa að notfæra sér þá en jafnframt þau óbeinu áhrif að hvetja fleiri til að bjóða upp á viðgerðarþjónustu og skapa störf – en þar er oft um að ræða lítil fyrirtæki sem getur munað um aukna ásókn í þjónustuna.

Fordæmi víða í Evrópu

Frumvarpið er í anda þeirrar þróunar sem á sér stað víða um heim til að styðja almenning í átt að sjálfbærari neyslu og innleiða hringrásarhagkerfið. Evrópusambandið hefur til að mynda unnið markvisst að því að styrkja rétt fólks til viðgerðar með heilmiklum reglugerðapakka undir regnhlífarheitinu „Right to Repair“ sem má vænta að hafi áhrif hér á landi í gegnum EES-samninginn.

Sambærilegum styrkjum og frumvarpið leggur til hefur verið komið á fót í fjölda ríkja á undanförnum misserum. Þannig má nefna að í Frakklandi getur fólk sótt um endurgreiðslu vegna fataviðgerða og undanfarið hefur verið hægt að sækja um styrk til endurgreiðslu vegna viðgerða á raftækjum í Austurríki.

Í Svíþjóð var sú leið farin að láta endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðgerðarþjónustu renna til þjónustuveitandans, sem er að ýmsu leyti flóknari framkvæmd og þótti ekki gefa jafn góða raun þar sem ávinningurinn skilaði sér ekki að öllu leyti í lægra verði.

Allir hagnast

Hér er því lögð til einföld leið til að ná fram skýrari ávinningi með því að endurgreiðslan nemi tilteknu hlutfalli af heildarkostnaði við smærri viðgerðir og renni beint til þess sem kaupir þjónustuna.

Fyrst boðað hefur verið til skyndikosninga eru orðnar hverfandi líkur á að frumvarp um hringrásarstyrki verði samþykkt af þessu þingi. En góðar hugmyndir lifa kosningar og þegar að því kemur að hringrásarstyrkir verða innleiddir hér á landi mun það verða mikilvægur hluti af því að bregðast við þróun síðustu áratuga og stuðla að sjálfbærara samfélagi og heilbrigðari sýn á hvernig við umgöngumst náttúru og umhverfi okkar.

Frumvarp um hringrásarstyrki er auk þess gott dæmi um þann anda sem ríkir í metnaðarfullri umhverfis- og loftslagsstefnu Pírata. Við viljum styðja almenning til að taka þátt í grænu umskiptunum, því einstaklingar eiga ekki að þurfa að axla ábyrgð fyrirtækjanna sem losa megnið af gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Hringrásarstyrkir virkja skýran vilja sem er til staðar. Fólk vill nefnilega hafa kost á því að laga, bæta og endurnýta en til þess þarf meðal annars að vera viðeigandi þjónusta til að sinna slíkum verkefnum. Hringrásarstyrkir myndu stuðla að betri rekstri þeirra fyrirtækja sem sinna viðgerðarþjónustu, sem og gera fólki kleift að kaupa þjónustuna á viðráðanlegra verði í staðinn fyrir að þurfa sífellt að kaupa nýja hluti í stað þeirra sem bila eða skemmast.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×