Alma er svæfinga- og gjörgæslulæknir sem var skipuð landlæknir árið 2018 og varð um leið fyrsta konan til að gegna embættinu. Hún var afar áberandi sem hluti af þríeykinu svokallaða í kórónuveirufaraldrinum á árunum 2020 til 2022. Hún var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu heilbrigðismála sumarið 2020.
Alma var orðuð við framboð til forseta Íslands fyrr á árinu en ákvað að fara ekki fram. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hún tekið ákvörðun um að láta slag standa í pólitíkinni og bjóða fram krafta sína hjá Samfylkingunni.
Ekki náðist í Ölmu við vinnslu fréttarinnar.
Uppfært klukkan 16:36
Alma hefur tilkynnt framboð sitt formlega. Tilkynninguna má lesa að neðan:
Kæru vinir.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Hver útkoman verður er jú óvíst, það er annarra að ákveða það, en ég vil bjóða fram krafta mína í þágu lands og þjóðar.
Ég hef unnið í og kringum heilbrigðiskerfið alla mína starfsævi, sem læknir, yfirlæknir, framkvæmdastjóri á Landspítalanum og loks sem landlæknir. Það þarf því ekki að koma á óvart að málefni lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu liggja mér nærri hjarta. Í störfum mínum hef ég kynnst að heilbrigðiskerfið okkar er drifið áfram af framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki. Hins vegar hefur skortur á starfsfólki og innviðaskuld haft áhrif á þjónustuna og við því þarf að bregðast af festu. Þá eru mikil tækifæri fólgin í því að efla lýðheilsu.
Ég tel að besti vettvangurinn til að vinna frekar að framgöngu heilbrigðismála sé í framlínu jafnaðarmanna. Efling lýðheilsu, styrking heilbrigðiskerfisins, samtryggingar okkar og öryggisnets, er meðal aðaláherslna Samfylkingarinnar, enda erindi hennar að skapa enn betra samfélag. Forsenda þess er að ná tökum á efnahagsmálunum og skapa hér skilyrði fyrir styrkingu innviða.
Við sjáum hvað verður en þangað til sinni ég mínu erilsama starfi sem landlæknir. Komi til kosningabaráttu hefur yfirmaður minn, heilbrigðisráðherra, fallist á beiðni mína um leyfi frá störfum.