Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en hann tekur fram að ákvörðun um að taka vöruna úr sölu eftir endurtekin skemmdarverk hafi verið tekin í samráði við Heimilistæki sem er umboðsaðili fyrir Sodastream hér á landi. Önnur sambærileg vara mun vera sett í sölu í staðinn. Heimildin greindi fyrst frá.
Geti ekki boðið upp á vöruna til sölu
„Það er verið að skemma söluvöru í verslunum og spurning hvernig best er að bregðast við því. Við getum ekki boðið upp á vöru í sölu sem er með svona merkingum á.“
Sagði Sigurður sem tók fram að annað slíkt hafi ekki komið fyrir áður hjá Hagkaup og segir ekki liggja fyrir að svo stöddu hvort skemmdarverkin verði tilkynnt til lögreglu
„Öll mál þar sem menn eru að skemma varning og valda tjóni inn í verslunum fara inn í farveg hjá okkur. Við erum með myndefni og vitum hverjir þetta eru og svo fer þetta í farveg.“
„Nú þurfum við að gefa í“
Færsla var birt á Facebook-hópnum Sniðganga fyrir Palestínu - BDS Ísland undir nafnleynd í gær þar sem kemur fram að meðlimir hópsins hafi verið að senda pósta á Sigurð og Hagkaup í meira en ár til að biðja um að þessar vörur verði fjarlægðar úr sölu.
„Sigurður er að íhuga að hætta að selja SodaStream vegna límmiða. Aðrar vörur hafa ekki verið merktar með fullnægjandi hætti. Nú þurfum við að gefa í, og merkja vörur frá Ísrael í Hagkaup. Við þurfum líka að segja Sigurði að hann sé á rangri leið, glæpavæðing aktivisma er hættuleg þróun sem við þurfum að stöðva,“ segir í færslunni.
Spurður hvort að hann og aðrir hjá Hagkaup hafi orðið vör við mikil afskipti frá mótmælendum síðasta ár svarar Sigurður:
„Nei alls ekki. Við svo sem höfum bara átt í ágætis samtali við þessa aðila hingað til þar sem þeir hafa oft á tíðum verið að forvitnast um stöðu ýmissa mála. Að öðru leyti hafa öll samskipti gengið nokkuð vel.“