Upp­gjörið: Aftur­elding - ÍBV 38-27 | Mosfellingar á toppinn með stór­sigri

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Harri Halldórsson í loftinu, með aðstoð Sigtryggs Daða Rúnarssonar.
Harri Halldórsson í loftinu, með aðstoð Sigtryggs Daða Rúnarssonar. vísir/Anton

Afturelding valtaði yfir ÍBV í Olís-deild karla í handbolta í kvöld að Varmá. Lokatölur 38-27 í leik þar sem heimamenn stjórnuðu ferðinni frá A til Ö á meðan Eyjamenn voru ekki mættir til leiks.

Sigurinn skilar Aftureldingu á topp deildarinnar með 11 stig, stigi fyrir ofan FH, en ÍBV er í sjötta sæti með sjö stig.

Heimamenn í Aftureldingu tóku leikinn strax hreðjataki og unnu sér strax inn góða forystu. Á meðan spiluðu Eyjamenn hægan og ómarkvissan sóknarleik og fengu fyrir vikið lítið úr krafsinu.

Daníel Bæring Grétarsson með skot af línunni.vísir/Anton

Varnarleikur Eyjamanna í fyrri hálfleik einkenndist af hreinum og beinum fautaskap, því miður. Liðið fékk tvö rauð spjöld í fyrri hálfleiknum sem og þrjár tveggja mínútna brottvísanir ofan á það.

Fyrra rauða spjaldið fékk Kristófer Ísak Bárðarson fyrir olnbogaskot og það síðara fékk Sigtryggur Daði Rúnarsson sem skellti Harra Halldórssyni harkalega í gólfið. Sigtryggur Daði fékk í kaupbæti blátt spjald fyrir vikið og er því líklega á leið í bann.

Ihor Kopyshynskyi sýndi flotta takta í kvöld.vísir/Anton

Sigtryggur Daði hafði fyrr í leiknum fylgt vel á eftir broti á Kristjáni Ottó Hjálmssyni sem í kjölfarið lauk leik og varði kvöldinu upp á spítala á afmælisdaginn rifbeinsbrotinn.

Eftir 22. mínútna leik var munurinn orðin tíu mörk, 14-4, og Eyjamenn ekki búnir að skora í tíu mínútur. Þessi munur hélst á liðunum fram að hálfleik. Var munurinn þetta mikill þrátt fyrir að Petar Jokanovic, markverði ÍBV, hafi tekist að verja fjögur vítaskot í fyrri hálfleik, en alla jafnan ætti slíkt að vera mikil vítamínssprauta fyrir lið sem er í brekku. Staðan 19-9.

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði fjögur mörk í kvöld.vísir/Anton

Eyjamenn hófu þó síðari hálfleikinn á ágætis áhlaupi og minnkuðu muninn niður í fimm mörk. Heimamenn tóku þá leikhlé og juku forystu sína aftur upp í tíu mörk.

Leikurinn var því löngu búinn fyrir lokaflaut leiksins og fengu margir ungir og óreyndir leikmenn að spreyta sig á lokakaflanum.

Atvik leiksins

Í leik þar sem Afturelding spilaði fanta vel þá var þó atvik leiksins ein af myrku hliðum kvöldsins. Atvikið þar sem Sigtryggur Daði fékk rautt spjald var afskaplega ljótt og í raun ótrúlegt að Harri hafi komið aftur inn á völlinn miðað við hvellinn sem heyrðist þegar hann skal af miklu afli í parketið.

Stjörnur og skúrkar

Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Aftureldingar, átti góðan leik í markinu hjá heimamönnum og varði mörg dauðafæri. Samherjar hans sem spiluðu úti á vellinum áttu einnig allir mjög góðan dag.

Skúrkurinn í afleitu liði ÍBV í dag var Sigtryggur Daði. Eftir að hafa farið illa með Kristján Ottó, sem endaði með beinbroti kórónaði hann afleitan dag sinn með rauðu og bláu spjaldi og er því að öllum líkindum á leiðinni í leikbann.

Dómarar

Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson voru með flest allt á hreinu í dag. Aukalegar tvær mínútur hér og þar hefðu þó mátt líta dagsins ljós og getur Gauti Gunnarsson t.d. Verið óánægður miðað við þau þrjú skipti sem var stigið inn í hlaupaleið hans þegar hann ætlaði að svífa inn úr horninu.

Stemning og umgjörð

Allt mjög hefðbundið á Varmá er varðar umgjörð og stemningu.

Magnús Stefánsson: Þetta breytir engu hjá okkur

„Það er bara lítið hægt að segja eftir svona leik,“ sagði Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, eftir leik sinna manna.

„Það er dýrt að missa tvö menn út af tiltölulega snemma með rauð spjöld. Ég sá ekki atvikið í fyrra rauða spjaldinu, en treysti dómurunum bara. Seinna rauða spjaldið var algjört rautt spjald. Þá vorum við svolítið þunnskipaðir í útilínunni, en mér fannst bara ungu strákarnir sem eftir voru, mér fannst þeir vera að gera hlutina vel, en við náðum ekki að koma boltanum í netið í þeim opnu færum sem við komum okkur í.“

Magnús Stefánsson reynir að segja sínum mönnum til.vísir/Anton

„Hann Einar Baldvin var drjúgur í markinu og svo vorum við að setja hann svolítið í stangirnar. Varnarlega eru hlutir sem við þurfum að skoða. Auðvelt samt að segja það bara með fjögur mörk skoruð eftir tuttugu mínútur. Fyrstu tuttugu mínúturnar vorum við einfaldlega ekki mættir til leiks. Vorum staðir og hikandi í sóknarleiknum og þessi kafli held ég að hljóti að skrifast á þjálfarateymið.“

Magnús segir þó þennan leik og þessa frammistöðu hjá liðinu breyta engu fyrir þá vegferð sem ÍBV er á.

„Þetta breytir engu hjá okkur. Þetta er bara partur af þessu langhlaupi. Ef við tökum eitthvað jákvætt út úr þessum leik þá erum við að fá fullt, fullt af mínútum á unga og óreynda leikmenn. Ég held að eins og oft áður þá skulum við sjá hver staðan verður þegar fer að líða undir lok. Við höfum verið dálítið duglegir undanfarin ár að blóðga unga leikmenn, fá leiki undir beltið hjá þeim. Þeir fengu að gera fullt af mistökum og fengu allan leikinn, ég er ánægður með það. Þetta breytir engu í okkar skipulagi, undirbúningi eða okkar vinnu. Við höldum bara áfram að vinna í þessu sem við erum að gera og höfum trú á verkefninu. Bara áfram gakk.“

Blær Hinriksson með boltann í leiknum við ÍBV í kvöld.vísir/Anton

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira