Innlent

Vand­ræða­legur starfs­maður rak Björn Leví burt frá vínbúðinni

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Leví hefur sig á brott með sína undirskriftalista, frá Vínbúðinni í Skeifunni; þar er bannað að safna undirskriftum.
Björn Leví hefur sig á brott með sína undirskriftalista, frá Vínbúðinni í Skeifunni; þar er bannað að safna undirskriftum. vísir/einar árnason

Björn Leví Gunnarsson þingmaður varð undrandi þar sem hann stóð í sakleysi sínu fyrir utan Vínbúðina og var að safna undirskriftum fyrir Pírata en var rekinn þaðan í burtu.

„Já. Ég þurfti víst að hafa uppáskrifað leyfi til að standa þarna á bílastæðinu í Skeifunni,“ segir Björn Leví forviða í samtali við fréttastofu.

Þetta gerðist nú í morgun. Björn Leví lýsir því þannig að starfsmaður Vínbúðarinnar hafi komið út, fremur vandræðalegur, og beðið Björn Leví vinsamlegast um að hypja sig. Björn Leví segist ekki vita hvað kom til, hvort yfirboðaðar hans hafi lagt þetta til eða einhver viðskiptavinur Vínbúðarinnar kvartað sérstaklega.

„Hann var bara að sinna sínu starfi en hafði augljóslega ekki gaman að því að sinna þessu verki,“ segir Björn Leví sem hlýddi þessu. Fór niður í bæ, stóð fyrir utan Vínbúðina í Austurstræti og því fylgdu svo engin vandamál.

Björn Leví segir að flokkarnir hver um sig þurfi að safna talsverðum slatta af undirskriftum til að fá að bjóða sig fram. Sem Birni finnst skondið en þetta sé nú einu sinni skemmtilegasti tíminn, þá hitti hann marga og gefist færi á að ræða við kjósendur. En það sé í mörg horn að líta, þó ríkisstjórnin hafi verið komin að fótum fram ber kosningarnar engu að síður bratt að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×