Á vef Guardian er vísað í kúbverska miðilinn CubaDebate þar sem kom fram að verið væri að vinna að því að koma rafmagni aftur á. Rafmagn fór fyrst af síðdegis í gær föstudag með þeim afleiðingum að tíu milljónir manna voru án rafmagns.
Í kjölfar rafmagnsleysisins var skólum lokað og ýmsir starfsmenn sendi heim. Um kvöldið voru ljós farin að blikka víða en ekki meira en það. Ekki hefur komið fram hvað varð til þess að rafmagni sló út aftur í dag eða hversu lengi yfirvöld búast við því að það muni vara.
Í frétt Guardian segir að rafmagnsleysi hafi verið nokkuð reglulegt síðustu vikur og hafi varað í jafnvel 10 til 20 klukkustundir í senn. Yfirvöld hafi kennt innviðum, skorti á eldsneyti og meiri eftirspurn um. Þá hafi fellibylurinn Milton einnig haft áhrif.
Erfitt hefur verið að fá eldsneyti til landsins á sama tíma og Venesúela, Rússland og Mexíkó hafa minnkað útflutning til Kúbu. Frá Venesúela kemur helmingi minna en áður sem hefur leitt til þess að yfirvöld hafa þurft að leita á dýrari markaði.
Þá kenna kúbversk yfirvöld einnig bandaríska viðskiptabanninu um auk viðskiptahafta sem voru sett á í stjórnartíð Donald Trump.