Fótbolti

Mikael í úr­vals­liði eftir mikinn tíma­­mót­a­­leik

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Anderson á að baki 31 A-landsleik.
Mikael Anderson á að baki 31 A-landsleik. Getty/Jose Breton

Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson er í ellefu manna úrvalsliði 12. umferðar í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta, eftir frammistöðu sína með AGF í 1-0 sigri á Bröndby.

Fyrir tíu dögum var Mikael með íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli þar sem hann lagði upp fyrra mark Íslands, fyrir Orra Óskarsson, í 4-2 tapinu gegn Tyrkjum.

Hann hélt svo heim til Árósa og tók þar á móti Bröndby í hörkuleik á mánudaginn, sem AGF vann að lokum en helstu atvik leiksins má sjá hér að neðan.

Mikael var svo einn af þremur leikmönnum AGF sem valinn var í úrvalslið 12. umferðar en hinir voru framherjinn Patrick Mortensen, sem skoraði sigurmark AGF úr víti, og miðvörðurinn Frederik Tingager.

Leikurinn við Bröndby var mikill tímamótaleikur hjá Mikael því þetta var hans hundraðasti leikur fyrir AGF.

Mikael hefur spilað alla tólf deildarleiki tímabilsins með AGF og skorað tvö mörk. Með sigrinum gegn Bröndby er AGF nú með 23 stig í 3. sæti, stigi á eftir efstu liðunum, FCK og Midtjylland. AGF hefur aðeins tapað einum leik til þessa en gert fimm jafntefli.

MIkael, sem er 26 ára gamall, kom til AGF frá Midtjylland sumarið 2021 og er á sinni fjórðu leiktíð í Árósum. Núgildandi samningur hans við AGF gildir til sumarsins 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×