Fótbolti

Víkingar fá sex­tíu milljónir fyrir sigurinn

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar fara tugum milljóna ríkari og með fullt sjálfstraust í úrslitaleikinn við Blika á sunnudaginn.
Víkingar fara tugum milljóna ríkari og með fullt sjálfstraust í úrslitaleikinn við Blika á sunnudaginn. vísir/Anton

Með sigrinum sögulega gegn belgíska liðinu Cercle Brugge á Kópavogsvelli í dag, í Sambandsdeildinni í fótbolta, tryggðu Víkingar sér sextíu milljónir króna til viðbótar í verðlaunafé frá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu.

Víkingar lentu undir í fyrri hálfleik en Ari Sigurpálsson var fljótur að jafna metin og í seinni hálfleik skoruðu þeir Danijel Djuric og Gunnar Vatnhamar, og tryggðu fyrsta íslenska sigurinn í aðalkeppni Sambandsdeildarinnar.

Breiðablik komst fyrst liða í aðalkeppnina í fyrra og gafst þá kostur á að bæta við sig verðlaunafé en náði hvorki að landa jafntefli né sigri.

Í Sambandsdeildinni í ár, sem nú er öll ein deild en ekki riðlakeppni eins og áður, fást 400.000 evrur fyrir hvern sigur og 133.000 evrur fyrir jafntefli. Það jafngildir um 60 milljónum króna fyrir sigur og um 20 milljónum króna fyrir jafntefli. Víkingar höfðu áður tryggt sér samtals tæplega 4 milljónir evra, eða um 600 milljónir króna, í verðlaunafé með árangri sínum í Evrópu í ár.

Gætu haldið áfram eftir áramót

Leikurinn í dag var fyrsti heimaleikur Víkings í keppninni, eftir 4-0 tap gegn Omonia Nicosia á Kýpur í byrjun þessa mánaðar. Víkingar eiga enn eftir fjóra leiki til viðbótar, tvo á heimavelli og tvo á útivelli, og geta því enn bætt við sig tugum milljóna króna fram að jólum þegar deildakeppninni lýkur.

Sigurinn í dag kemur Víkingum jafnframt í góða stöðu í baráttunni um að komast áfram í Sambandsdeildinni, í útslátarkeppnina eftir áramót. Öll 36 liðin eru saman í einni deild og komast átta efstu liðin beint í 16-liða úrslit, en liðin í 9.-24. komast í umspil um sæti í 16-liða úrslitunum.

Næsta verkefni Víkings er hins vegar úrslitaleikurinn við Breiðablik á sunnudaginn, um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×