Stál í stál í stór­leiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah skoraði jöfnunarmark Liverpool.
Mohamed Salah skoraði jöfnunarmark Liverpool. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Arsenal og Liverpool gerðu 2-2 jafntefli er liðin mættust í stórleik níundu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var hin mesta skemmtun og ljóst að bæði lið ætluðu að sækja til sigurs. Heimamenn voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Bukayo Saka  kláraði vel úr þröngu færi eftir sendingu frá Ben White strax á níundu mínútu.

Aðeins níu mínútum síðar var staðan þó aftur orðin jöfn eftir að Virgil van Dijk stangaði hornspyrnu Trent Alexander-Arnold í netið.

Skytturnar tóku hins vegar forystuna á ný á 43. mínútu þegar aukaspyrna Declan Rice fann kollinn á Mikel Merino og Spánverjinn skilaði boltanum rétta leið. Mennirnir í VAR-herberginu tóku sér góðan tíma í að leita að rangstöðu, en fundu hana ekki og staðan í hálfleik því 2-1, Arsenal í vil.

Síðari hálfleikur var mun lokaðari en sá fyrri og liðunum gekk illa að skapa sér opin marktækifæri. Gestirnir í Liverpool náðu þó loksins að finna jöfnunarmarkið á 81. mínútu þegar Mohamed Salah batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn og skilaði sendingu frá Darwin Nunez í netið.

Bæði lið leituðu að sigurmarki síðustu mínúturnar, en fundu það ekki og niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli í stórleik helgarinnar. Úrslitin þýða að Liverpool situr enn í öðru sæti deildarinnar, nú með 22 stig eftir níu leiki, einu stigi á eftir toppliði Manchester City. Arsenal situr hins vegar í þriðja sæti með 18 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira