Íslenski boltinn

Sjáðu Benóný Breka bæta marka­metið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benóný Breki Andrésson fagnar eftir að hafa jafnað markametið í efstu deild.
Benóný Breki Andrésson fagnar eftir að hafa jafnað markametið í efstu deild. vísir/anton

KR-ingurinn Benóný Breki Andrésson bætti í dag markametið í efstu deild karla í fótbolta. Hann skoraði fimm mörk þegar KR kjöldró HK, 7-0, í lokaumferð Bestu deildarinnar.

Fyrir leikinn á AVIS-vellinum í Laugardalnum hafði Benóný skorað sextán mörk í Bestu deildinni. Það hljóp svo heldur betur á snærið hjá þessum nítján ára framherja í dag því hann skoraði fimmu í leiknum.

Eftir hálftíma fiskaði Benóný vítaspyrnu sem hann skoraði sjálfur úr. Þorsteinn Aron Antonsson, varnarmaður HK, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt og HK-ingar kláruðu leikinn því einum færri.

KR-ingar nýttu sér það til hins ítrasta og sýndu HK-inga enga miskunn. Benóný skoraði annað mark sitt og þriðja mark KR á 32. mínútu.

Á 51. mínútu jafnaði hann svo markamet þeirra Péturs Péturssonar, Guðmundar Torfasonar, Þórðar Guðjónssonar, Tryggva Guðmundssonar og Andra Rúnars Bjarnasonar þegar hann skoraði sitt nítjánda mark á tímabilinu.

Benóný var þó hvergi nærri hættur. Hann sló markametið á 67. mínútu þegar hann skoraði tuttugasta mark sitt í sumar. Benóný bætti svo einu marki við á lokamínútunni.

Klippa: Benóný Breki slær markametið í efstu deild

Hann skoraði því 21 mark í 26 leikjum í sumar. Viktor Jónsson er næstmarkahæstur í deildinni með átján mörk en hann er núna að spila með ÍA gegn Val á Hlíðarenda.

Fyrir leikinn í dag fékk Benóný Flugleiðahornið fyrir að vera valinn besti ungi leikmaður Bestu deildarinnar.

Mörkin Benónýs úr leiknum í dag má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×