Fótbolti

Arnór Ingvi með mikil­vægt mark í langþráðum sigri Norrköping

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason og félagar í Norrköping unnu kærkominn sigur í dag.
Arnór Ingvi Traustason og félagar í Norrköping unnu kærkominn sigur í dag. vísir/hulda margrét

Eftir níu leiki í röð án sigurs vann Norrköping loksins leik þegar liðið lagði Värnamo að velli í dag, 1-2. Arnór Ingvi Traustason skoraði annað mark gestanna.

Norrköping er nú fjórum stigum frá fallsæti þegar liðið á tvo leiki eftir á tímabilinu. Fyrir leikinn munaði aðeins einu stigi á Norrköping og Värnamo.

Christoffer Nyman kom Norrköping yfir á 25. mínútu og á 59. mínútu skoraði Arnór Ingvi annað mark liðsins. Þetta var fimmta mark hans í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. 

Samuel Kotto minnkaði muninn fyrir Värnamo þegar fjórar mínútur voru til leiksloka en nær komust heimamenn ekki. Ísak Andri Sigurgeirsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Norrköping.

Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson komu báðir inn á þegar stundarfjórðungur var eftir af leik AIK og Elfsborg. AIK vann leikinn, 2-1.

Þetta var þriðja tap Elfsborg í röð en liðið er í 8. sæti deildarinnar. Eggert hefur fengið fá tækifæri með liðinu á tímabilinu en fyrir leikinn í dag hafði hann ekki spilað mínútu með Elfsborg síðan 1. september.

Í dönsku úrvalsdeildinni lék Sævar Atli Magnússon allan leikinn þegar Lyngby tapaði fyrir Vejle, 2-0, í uppgjöri neðstu liðanna. Lyngby hefur aðeins unnið einn af fyrstu þrettán deildarleikjum sínum á tímabilinu og einungis skorað átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×