Íslenski boltinn

Ein­kunnir úr úr­slita­leiknum: Magnaður Ísak Snær en Víkingar langt frá sínu besta

Íþróttadeild Vísis skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson lyftir Íslandsmeistaraskildinum. Hann var maður leiksins í kvöld að mati Íþróttadeildar Vísis.
Ísak Snær Þorvaldsson lyftir Íslandsmeistaraskildinum. Hann var maður leiksins í kvöld að mati Íþróttadeildar Vísis. Vísir/Anton Brink

Breiðablik varð í kvöld Íslandsmeistari í knattspyrnu þegar þeir unnu öruggan 3-0 sigur á Víkingi í úrslitaleik um titilinn. Í fréttinni má sjá einkunnagjöf Íþróttadeildar Vísis úr leiknum en maður leiksins kom vitaskuld úr liði Íslandsmeistaranna.

Víkingur

Ingvar Jónsson, markvörður 5

Virtist aðeins villtur þegar hann reyndi að verjast Ísaki í fyrsta markinu og greip í tómt í úthlaupi þegar Aron Bjarnason skoraði þriðja markið. Hefur spilað betur en er ekki ástæðan fyrir tapi Víkinga í kvöld.

Karl Friðleifur Gunnarsson, hægri bakvörður 5

Tók ágætlega virkan þátt sóknarlega en komst lítið áleiðis. Var færður yfir til vinstri þegar Davíð Örn kom inn af bekknum og komst í ágætar stöður sem lítið varð úr.

Oliver Ekroth, miðvörður 3

Sneri aftur úr meiðslum og var augljóslega ekki í leikformi. Var frá í þrjár vikur og virkaði mjög óöruggur í öllum sínum aðgerðum í kvöld og lenti oft í vandræðum með Ísak Snæ. Blikar gerðu honum heldur enga greiða og pressuðu stíft í hvert skipti sem hann fékk boltann.

Aron Bjarnason reynir að koma boltanum á markið og Ingvar Jónsson er við öllu viðbúinn.Vísir/Anton Brink

Gunnar Vatnhamar, miðvörður 5

Átti skalla í stöngina í upphafi síðari hálfleiks. Mark þar hefði þýtt allt aðra stöðu fyrir Víkinga. Gunnar barðist eins og ljón en var líkt og Oliver oft í vandræðum í miðri vörninni. Var færður upp á miðjuna í síðari hálfleik sem breytti litlu.

Tarik Ibrahimagic, vinstri bakvörður 4

Hefur komið sterkur inn í lið Víkinga eftir að hafa komið frá Vestra á miðju sumri. Gerði slæm mistök í síðasta leik gegn ÍA sem kostuðu mark og átti heldur ekki góðan leik í kvöld. Var tekinn af velli á 58. mínútu.

Tarik Ibrahimagic tekur á móti knettinum.Vísir/Anton Brink

Aron Elís Þrándarson, miðjumaður 4

Varð undir í baráttunni á miðjunni gegn Höskuldi. Komst lítið í takt við leikinn og virkaði hálf týndur. Var ekki lykilleikmaðurinn sem hann getur verið í þessu Víkingsliði.

Gísli Gottskálk Þórðarson, miðjumaður 5

Hefur spilað frábærlega að undanförnu en náði ekki sömu hæðum í dag. Reyndi hvað hann gat að koma sér inn í leikinn en var tekinn útaf á 75. mínútu þegar Víkingar gerðu tilraun til að breyta gangi mála.

Danijel Dejan Djuric, miðjumaður 5

Er gríðarlega mikilvægur í sóknarleik Víkinga en náði ekki sínum besta leik frekar en aðrir leikmenn Víkings. Átti ágæta spretti í síðari hálfleik og komst nálægt því að skora þegar hann skallaði boltann í þverslána. Var tekinn af velli á 75. mínútu.

Hvorki Ari Sigurpálsson né Aron Elís Þrándarson spiluðu sinn besta leik í kvöld.Vísir/Anton Brink

Erlingur Agnarsson, hægri vængmaður 5

Komst lítið áleiðis gegn liði Blika. Lenti í samstuði við Kristin Jónsson snemma leiks en kom sem betur fer heill út úr því.

Ari Sigurpálsson, vinstri vængmaður 3

Komst aldrei í takt við leikinn en Ari hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Víkinga í sumar. Var tekinn af velli á 58. mínútu leiksins eftir að hafa verið afar lítið áberandi.

Nikolaj Hansen, sóknarmaður 5

Færin voru fá sem Nikolaj fékk í kvöld, lítil þjónusta frá liðsfélögunum. Átti fastan skalla eftir hornspyrnu um miðjan seinni hálfleik en stýrði honum bara niður í jörðina frekar en á markið.

Varamenn:

Helgi Guðjónsson 5 (kom inná fyrir Ara Sigurpálsson á 58. mínútu)

Kom inn af ágætum krafti og átti fljótlega hættulega fyrirgjöf sem samherjar hans voru ekki nógu grimmir að elta í teignum. Var ekki ofurvaramaðurinn í kvöld eins og oft áður.

Davíð Örn Atlason 5 (kom inná fyrir Tarik Ibrahimagic á 58. mínútu)

Fór í hægri bakvörðinn í stað Karl Friðleifs sem færði sig til vinstri. Leggur sig alltaf hundrað prósent fram en í dag dugði það ekki til.

Arnar Gunnlaugsson þurfti að fylgjast með leik sinna manna úr stúkunni þar sem hann tók út leikbann.Vísir/Anton Brink

Jón Guðni Fjóluson (kom inná fyrir Danijel Dejan Djuric á 75. mínútu)

Spilaði ekki nóg til að fá einkunn

Viktor Örlygur Andrason (kom inná fyrir Gísla Gottskálk Þórðarson á 75. mínútu)

Spilaði ekki nóg til að fá einkunn

Breiðablik

Anton Ari Einarsson, markvörður 7

Var traustur líkt og hann hefur verið í allt sumar og getur verið ánægður með sína frammistöðu. Fékk í leikslok verðlaun fyrir að vera sá markmaður sem oftast hefur haldið hreinu í Bestu deildinni á tímabilinu.

Andri Rafn Yeoman, hægri bakvörður 7

Herra Breiðablik spilaði vel í hægri bakverðinum. Hann er annar af tveimur leikmönnum Blikaliðsins sem hefur verið í liðinu öll þrjú tímabilin sem félagið hefur orðið meistari, skilar alltaf sínu og gerði það í kvöld.

Damir fagnar með stuðningsmönnum Blika.Vísir/Anton Brink

Damir Muminovic, miðvörður 8

Gerði stórvel í öðru marki Blika. Hélt boltanum úti í horni, lék á varnarmann og gaf frábæra fyrirgjöf sem endaði með marki eftir klafs í teignum. Með allt á hreinu á hinum enda vallarins.

Viktor Örn Margeirsson, miðvörður 8

Markið hreint og Víkingar fengu afar fá færi. Frábær frammistaða.

Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður 6

Fór af velli vegna meiðsla á 21. mínútu eftir að hafa lent í hörðum árekstri við Erling Agnarsson. Afar svekkjandi fyrir þennan reynslumikla leikmann sem virtist bæði vankaður og þjáður eftir áreksturinn.

Arnór Gauti Jónsson, miðjumaður 8

Stýrði miðjunni og vann frábæra varnarvinnu allan leikinn. Átti samt nóg eftir á tanknum og vildi ekki skiptingu í uppbótartíma. Fékk gult spjald fyrir að vera of lengi að fara af velli. Alvöru stælar en var sannarlega búinn að vinna fyrir þeim.

Arnór Gauti spilaði vel í kvöld.Vísir/Anton Brink

Viktor Karl Einarsson, miðjumaður 7

Var afar duglegur og mikilvægur hlekkur í frábærlega vel heppnaðri pressu Blika í leiknum.

Höskuldur Gunnlaugsson, miðjumaður 8

Mikilvægi fyrirliðans í þessu Blikaliði verður seint ofmetið. Spilaði fantavel í dag, stýrði liðinu eins og herforingi og steig ekki feilspor. Leikmaður sem allir þjálfarar vilja hafa í sínu liði.

Aron Bjarnason, hægri vængmaður 8

Var afar öflugur í pressunni og kláraði færið sitt frábærlega þegar hann skoraði markið sem innsiglaði sigurinn. Mjög góð frammistaða.

Blikar fagna í leikslok.Vísir/Anton Brink

Davíð Ingvarsson, vinstri vængmaður 7

Byrjaði á kantinum en var færður í bakvörðinn þegar Kristinn fór af velli meiddur. Spilaði vel, engin mistök og fín frammistaða heilt yfir.

Ísak Snær Þorvaldsson, sóknarmaður 9

Maður leiksins. Var með varnarmenn Víkinga í vasanum og skoraði tvö mörk í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Hvað viljið þið meira?

Varamenn

Kristinn Steindórsson (kom inná fyrir Kristin Jónsson á 21. mínútu) 8

Kom inn af bekknum snemma leiks sem er alltaf ákveðin áskorun. Spilaði af öryggi og nýtti reynslu sína þegar á þurfti að halda. Lagði upp þriðja markið fyrir Aron og var að vinna sinn þriðja Íslandsmeistaratitil með Breiðabliki.

Kristófer Ingi Kristinsson (kom inn fyrir Ísak Snæ á 78. mínútu)

Spilaði ekki nógu lengi til að fá einkunn en átti að fá víti á lokasekúndunum þegar Ingvar markvörður Víkinga straujaði hann niður í teignum.

Oliver Sigurjónsson (kom inn fyrir Arnór Gauta í uppbótartíma)

Spilaði of lítið til að fá einkunn

Benjamin Stokke (kom inn fyrir Viktor Karl í uppbótartíma)

Spilaði of lítið til að fá einkunn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×