Erlent

Vill hvorki gera meira né minna úr á­rásunum en á­stæða er til

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðbrögð ráðamanna í Íran þykja benda til þess að viðbrögðin við árásum Ísrael verði hófsöm.
Viðbrögð ráðamanna í Íran þykja benda til þess að viðbrögðin við árásum Ísrael verði hófsöm. AP/Skrifstofa Khamenei

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran, sagði í gær að það bæri hvorki að gera meira né minna úr árásum Ísrael á föstudag en ástæða væri til. Orð hans þykja benda til þess að alvarleg stigmögnun sé ekki yfirvofandi eins og stendur.

Stjórnvöld í Íran hafa almennt gert lítið úr árásunum en utanríkisráðherrann Abbas Araghchi sagði þær ógn við „alþjóðlegan frið og öryggi“ í erindi til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. 

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði árásirnar hafa beinst gegn hernaðarlegum innviðum Íran en um var að ræða svar við árásum Írana á Ísrael á dögunum. Höfðu margir vænst þess að hefndarárásirnar yrðu umfangsmeiri en raun bar vitni.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa kallað eftir stillingu en margir óttast að ítrekaðar árásir á báða bóga gætu leitt til allsherjar stríðs á svæðinu. 

Masoud Pezeshkian, forseti Íran, sagði stjórnvöld ekki leitast eftir því að fara í stríð við Ísrael en að árásunum yrði svarað á „viðeigandi“ hátt. Íranir áskildu sér rétt til að verja land sitt og þjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×